„Ekki koma með enn eitt bullið“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, og Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, tókust á á Alþingi um raforkuverð í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans.

Birgir hvatti Þorgerði til þess að lesa skýrslu Orkunnar okkar þar sem meðal annars er kveðið á um hækkun á raforkuverði. „Raforkuverð á Íslandi hefur hækkað eftir innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Tíu prósent við innleiðinguna 2003, að raunvirði 7 til 8 prósent til dagsins í dag,” sagði Birgir.

Þorgerður steig þá í pontu og sagðist hafa setið marga fundi, meðal annars í utanríkismálanefnd. Þar hafi Hilmar Gunnlaugsson, sérfræðingur á sviði orkumála, bent á að innleiðing orkupakka eitt og tvö og núna þrjú hefði ekkert með raforkuverð að gera. Hún sagði hækkun á raforkuverði meðal annars geta verið vegna orkuskorts og annarra þátta.

Birgir Þórarinsson, í miðjunni, á Alþingi.
Birgir Þórarinsson, í miðjunni, á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Menn skulu bera saman epli og epli, ekki alltaf epli og appelsínu en það hentar þessum tilgangi hjá Miðflokknum að snúa alltaf út úr í þessu,” sagði hún og bætti við að frá árinu 2002 hafi verið heimild til að lækka húshitunarkostnað og niðurgreiðslur hafi verið í þá veru.

„Ekki koma með eitthvað annað. Ekki koma með enn eitt bullið hingað upp í ræðustól. Þetta er ekkert annað en bull sem er sett fram til þess að reyna að draga úr því hvað staðreyndirnar einfaldlega bera með sér,” sagði hún.

Skömmu síðar bætti hún við: „Miðflokksmenn hafa ekki lært neitt í sumar. Þeir hafa ekki komið með neitt nýtt. Ekki halda áfram að setja fram hér staðleysu fyrir þing og þjóð, þetta er ekki boðlegt.”

Útsending Alþingis:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert