Árásin sem var gerð á unglingspilta með rafbyssu í gærkvöldi átti sér stað við Hörðuvallaskóla í Kópavogi. Þrír urðu fyrir árásinni en enginn þeirra hlaut alvarlega áverka heldur fyrst og fremst roða.
Að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, voru piltarnir á skólalóðinni í rólegheitum þegar aðrir piltar komu þangað á bíl og veittust að þeim. Meðal annars héldu þeir einum og stuðuðu hann með rafbyssunni. Ekki er vitað hvað þeim gekk til með árásinni.
Vasahnífar fundust á piltunum og í bílnum og voru þeir gerðir upptækir. Þeim var ekki beitt í árásinni.
Málið var unnið í samvinnu við starfsmenn barnavendar í nótt og voru foreldrar kallaðir til. Framhaldið verður á þeim vettvangi.
Gunnar segir rafbyssur hættulegar og bætir við að slík mál komi upp í hendurnar á lögreglu öðru hverju. Oftast er þar um ungmenni að ræða og virðast þau eiga auðvelt með að komast yfir byssurnar, meðal annars á netinu.