Sagði Guðlaug Þór haldinn þráhyggju

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Hari

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tókust á um meinta þráhyggju þess fyrrnefnda gagnvart Sigmundi Davíð í tengslum við umræðuna um þriðja orkupakkann.

Guðlaugur Þór vitnaði í ræðu sinni á Alþingi í þingsályktunartillögu um málið sem var lögð fram í málinu fyrir fimm mánuðum og sagði í framhaldinu að samþykkt málsins væri í fullu samræmi við stjórnarskrána.

Sigmundur Davíð sagði Guðlaug Þór hafa hraðlesið gamlan embættismannatexta og hefði ekkert nýtt fram að færa. Spurði hann Guðlaug hvaða kosti hann sjái við það að innleiða þriðja orkupakkann.

Guðlaugur Þór steig í framhaldinu í pontu og sagðist vona að Sigmundur Davíð væri maður að meiri og gengist við því að hann hefði á sínum tíma lýst yfir áhuga á að leggja sæstreng á milli Íslands og Bretlands. Það hafi hann gert á fundi sínum með David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, hér á landi.

Guðlaugur Þór Þórðarson á Alþingi.
Guðlaugur Þór Þórðarson á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð veitti aftur andsvar og talaði um þráhyggju utanríkisráðherra í sinn garð og krafðist aftur svara frá honum um hvers vegna hann vilji innleiða orkupakkann.

„Þar kom að því. Ég er kominn í hóp meirihluta þjóðarinnar sem er með þráhyggju fyrir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að hans mati,” svaraði Guðlaugur Þór.

„Að sjálfsögðu,” hrópaði Sigmundur þá úr salnum.

Guðlaugur Þór hélt áfram og sagði allt ganga út á Sigmund Davíð. „Við getum ekki hugsað um annað en þig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert