Þingfundur hefur staðið yfir á Alþingi frá því klukkan 10:30 í morgun en hann er hluti af svokölluðum þingstubbi sem hófst í gær og er einkum ætlaður til þess að afgreiða þingmál tengd innleiðingu á þriðja orkupakka Evrópusambandsins.
Lokið var umræðu um þingsályktun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um samþykkt þriðja orkupakkans, með því aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af honum, í gær en í dag hafa farið fram umræður um þingmál í tengslum við innleiðinguna.
Fjölmargir þingmenn hafa tekið til máls í umræðu í þingsal í dag um þingmálin, sem lögð eru fram af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þingmenn Miðflokksins hafa verið einna mest áberandi í henni. Gert er ráð fyrir að þingfundurinn standi þar til um klukkan átta í kvöld líkt og í gær.