„Hús sem við öll munum njóta góðs af“

Mikil gleði var við undirritun samningsins í dag.
Mikil gleði var við undirritun samningsins í dag. mbl.is/Hari

Samningur vegna byggingar Húss íslenskunnar var undirritaður á byggingarstað að Arngrímsgötu í Reykjavík í dag. Húsinu er ætlað að hýsa starfsemi stofnunar Árna Magnússonar og þau íslensku handrit sem skilað var til landsins frá Danmörku.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, og Karl Andreassen framkvæmdastjóri ÍSTAKs undirrituðu samninginn í dag.

„Þetta eru merk tímamót, við erum að reisa Hús íslenskunnar sem mun geyma mestu menningarverðmæti sögunnar. […] Þetta er hús sem við munum öll njóta góðs af og vera stolt af í framtíðinni,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.

„Þarna verður sýningaraðstaða og ég sé það fyrir mér að þetta verði mjög eftirsóknarverður staður fyrir bæði Íslendinga til þess að skoða handritin og kynnast þeim og svo auðvitað erlenda ferðamenn.“

Katrín Jakobsdóttir og skóflustungan árið 2013.
Katrín Jakobsdóttir og skóflustungan árið 2013. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Langur aðdragandi

Lengi hefur staðið til að byggja hús undir handritin og var meðal annars gert ráð fyrir húsnæði stofnunar Árna Magnússonar í skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 2007. Árið 2013 tók Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og þáverandi menntamálaráðherra, fyrstu skóflustungu að Húsi íslenskunnar. Var grafið fyrir grunni hússins, en framkvæmdir hófust ekki.

Á ársfundi stofnunar Árna Magnússonar árið 2016 tilkynnti Illugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, að öll tvímæli um Hús íslenskunnar væru tekin af. Settu Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunarinnar, og Illugi bréfbát á flot í drullupolli í grunninum að húsinu.

Var sigling bátsins sögð „tákn um að nú sé kominn skriður á þau áform að reisa myndarlegt hús yfir íslenska tungu og dýrgripi sem skrifaðir hafa verið á því máli frá upphafi ritaldar,“ á vef stofnunarinnar.

Guðrún Nordal og Illugi Gunnarsson.
Guðrún Nordal og Illugi Gunnarsson. Ljósmynd/Stofnun Árna Magnússonar

6,2 milljarðar

Það var síðan í maí á þessu ári sem tilkynnt var að ÍSTAK hafi verið lægstbjóðandi í byggingu Húss íslenskunnar og að ríkið myndi ganga til samninga við fyrirtækið. Er áætlað að verkið kosti 6,2 milljarða króna.

Undirbúningur að framkvæmdum hófst í júli og var byrjað að steypa í grunninn skömmu seinna. Gert er ráð fyrir að húsið verði opnað með formlegum hætti árið 2023.

Lilja segir það fagnaðarefni að framkvæmdir séu hafnar og að með því að reisa húsið sé verið að setja íslenskuna í öndvegi og standa vörð um íslenskuna. „Tímasetningin er góð, það er samdráttur í hagkerfinu og þessi framkvæmd er tilbúin,“ bætir ráðherrann við.

„Hola íslenskra fræða“ stóð opin í um sex ár.
„Hola íslenskra fræða“ stóð opin í um sex ár. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert