Loftslagsmál verða í aðalhlutverki á flokkráðsfundi Vinstri-grænna sem hefst nú á sjötta tímanum og mun standa yfir í Skaftafelli um helgina í aðdraganda ellefta landsfundar hreyfingarinnar um miðjan október.
Málefnavinnu og yfirlit Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG og forsætisráðherra, mun bera hæst á fundinum og marka upphafið að seinni hluta kjörtímabilsins í ríkisstjórn Katrínar.
Á fundinum verða drög að nýrri matvælastefnu, umhverfisstefnu, orkustefnu, heilbrigðisstefnu og jafnréttisstefnu reifuð svo eitthvað sé nefnt. Þá verður gerð grein fyrir vinnu stjórnarskrárhóps VG sem hefur starfað á þessu kjörtímabili.
Loftslagsmálin verða meginstefið í stefnumótun Vinstri-grænna í öllum málaflokkum.
„Loftslagsbreytingar eru brýnasta pólitíska viðfangsefni samtímans. Stjórnmálahreyfingum ber því að taka mið af þessu í allri sinni stefnumótun og flétta inn í hana leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka kolefnisbindingu og gera um leið áætlanir til að bregðast við þeim breytingum sem fyrirsjáanlegar eru,“ er haft eftir forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, í tilkynningu.
Katrín mun halda ræðu klukkan 17:15 og verður beint streymi frá henni á vefsíðu VG.
VG komst á þrítugsaldurinn á árinu og verður því fagnað um helgina. Þingmenn hreyfingarinnar munu sitja í pallborði á laugardeginum og greina málefnin og stöðuna í stjórnmálum með fulltrúum flokksráðs.
Ný stjórn VG verður kosin á landsfundi í október og gefið hefur verið út að Edward H. Huijbens varaformaður muni ekki gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.