Vinstrihreyfingin mun þora, geta og gera

Katrín Jakobsdóttir hélt óhefðbundið erindi á flokkráðsfundi VG sem stendur …
Katrín Jakobsdóttir hélt óhefðbundið erindi á flokkráðsfundi VG sem stendur nú yfir. Hún fór yfir söguna og sagði hana sanna að hreyfingin muni þora, geta og takast á við erfið málefni. Ljós­mynd/​Steinþór Rafn Matth­ías­son

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs, fór yfir víðan völl í ræðu sinni á flokksráðsfundi VG sem hófst á sjötta tímanum í dag og mun standa yfir um helgina.

Í stað þess að fara með hefðbundna ræðu þá sagðist hún í upphafi erindis ætla að taka þá „gríðarlega pólitísku áhættu að vera með glærusýningu“. Nokkuð sem hún hefði ekki gert síðan hún starfaði sem kennari.

Skipta lýðræðislegar stjórnmálahreyfingar máli?

Í upphafi sagðist hún vilja velta fyrir sér spurningunni hvort það skipti máli að starfa innan lýðræðislegrar stjórnmálahreyfingar á tímum þar sem vantraust ríkti á stjórnmálum og stjórnmálaflokkum.

Edward H. Huijbens varaformaður Vinstri grænna hélt ræðu þar sem …
Edward H. Huijbens varaformaður Vinstri grænna hélt ræðu þar sem honum var tíðrætt um öfgahægristjórnmál og vandamál sem tengdust þeim. Ljós­mynd/​Steinþór Rafn Matth­ías­son

Í glærusýningunni fór hún yfir ályktanir landsfundar Vinstri-grænna frá árinu 1999 til 2017. Þá rifjaði hún upp kosningaherferðir hreyfingarinnar á sama tímabili, bæði fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar. Mikið var hlegið enda gerði Katrín óspart grín að klúðurslegum kosningaherferðum sem hafa ekki elst vel. Hún var þó töluvert ánægðari með ályktanir landsfunda VG frá árinu 1999 og sagði þær sýna að hreyfingin hefði oft verið á undan samtíðinni í mikilvægum málum.

Ástæðan fyrir þessari nálgun var sú að hún var spurð að því nýverið í viðtali hvort stefnumál VG væru ekki bara orð á blaði. Með því að rifja upp landsfundaályktanir og kosningaloforð hreyfingarinnar frá því hún komst á legg fyrir 20 árum vildi hún sýna að Vinstri-græn væru hreyfing sem tæki á erfiðum málefnum, næði niðurstöðu um þau og stæði fast á þeirri niðurstöðu.

Erindi Vinstri-grænna „brýnna en nokkru sinni fyrr

„Ég hef áhyggjur af þróun lýðræðislegra stjórnmálahreyfinga í samtímanum og þess vegna er okkar erindi brýnna en nokkru sinni fyrr. Því er mikilvægt að segja frá okkar sögu og hvað við höfum verið að gera,“ sagði Katrín og bætti við:

„Þess vegna skiptir máli að við stöndum með okkur sjálfum, þekkjum söguna, vitum hver við erum og hvaðan við komum. Ég er mjög bjartsýn fyrir hönd þessarar hreyfingar og ég held að saga hennar sýni að hún mun þora, hún mun geta og hún mun gera.

Ályktuðu um loftlagsmál fyrir 20 árum

Ég leitaði aftur í ályktanir landsfundar frá árinu 1999 og mér fannst magnað að sjá að VG var þá strax farin að álykta um loftslagsmál,“ sagði Katrín. Hún bætti því við að fyrstu lögin um loftslagsmál hefðu verið sett árið 2012 í tíð Svandísar Svavarsdóttur, núverandi heilbrigðisráðherra, og þar hefði verið lögfest atriði sem ályktað var um árið 1999.

Fyrir 20 árum ályktaði landsfundur VG einnig að nýir orkugjafar ættu að leysa innflutt eldsneyti af hólmi og nú „erum við að innleiða áætlun um orkuskipti“, sagði hún.

Sérstaða í afstöðu til hernaðarmála

„Frá upphafi höfum við haft algjöra sérstöðu með afstöðu [um herlaust land],“ sagði Katrín þegar hún birti glæru af ályktun landsfundar frá árinu 2001. Þrátt fyrir það væri hún ennþá spurð í öllum stórum viðtölum um afstöðu til viðveru hers á Íslandi.

„Hefur þá ekkert gerst?“ spurði hún og svaraði spurningunni svo sjálf með því að vísa til þjóðaröryggisstefnu Íslands sem hefur verið samþykkt.

Á landsfundi árið 2001 var að hennar sögn í fyrsta skipti talað um netöryggi, loftslagsvána, friðlýsingu Íslands fyrir kjarnavopnum og efnahagsöryggi.

„Þetta er komið“

Það kom henni á óvart að árið 2003 hefði verið ályktað um vernd villta laxastofnsins, mál sem hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. En fyrstu lögin um fiskeldi hefðu ekki verið sett fyrr en árið 2008.

Þá fannst henni sérstaklega gaman að rifja upp ályktanir frá árinu 2005 um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs og friðun Jökulsár á Fjöllum. „Þetta er komið,“ sagði Katrín og uppskar mikið lófatak.

Katrín lék á alls oddi með glærusýningu sinni og gerði …
Katrín lék á alls oddi með glærusýningu sinni og gerði óspart grín að gömlum kosningaherferðum Vinstri grænna. Ljós­mynd/​Steinþór Rafn Matth­ías­son

Ályktun um 14% fjármagnstekjuskatt þótti róttæk

Næst rifjaði hún upp landsfund frá árinu 2007 þar sem hreyfingin ályktaði um að fjármagnstekjuskattur yrði hækkaður í 14%. Hún spurði viðstadda hvort þeir vissu hvað skattprósentan væri í dag og ekki stóð á svörum úr salnum, 22%, heyrðist í viðstöddum. Hún benti á að fjármagnstekjuskattur hefði verið hækkaður tvisvar frá árinu 2007 og í bæði skiptin hefði VG verið í ríkisstjórn.

„Það er magnað að sjá hversu mikið umræðan um þessi mál hefur breyst frá því að við settum fram þessa kröfu sem þótti gríðarlega róttæk. Þessi skattur er auðvitað viðkvæmt mál því þarna erum við að tala um skatttekjur af eignum og hagnaði,“ sagði hún og bætti við:

„Til framtíðar litið mun þessi skattstofn skipta mjög miklu máli.“

Hætt verði við áform um að selja orku til útlanda með sæstreng

Á landsfundi 2017 var ályktað að hætt yrði við áform um að selja orku til útlanda með sæstreng. „Við höfum talað skýrt í þessu máli frá upphafi. Ástæðan er sá þrýstingur sem slíkur sæstrengur myndi setja á miklu fleiri virkjanir á Íslandi og þar voru náttúruverndarsjónarmið höfð að leiðarljósi,“ sagði Katrín.

Hún sagði að fólk hefði áhyggjur af því að einstaklingar sem keyptu eignarlönd væru um leið að eignast vatnsréttindi. „Þetta eru áhyggjur sem við eigum að taka alvarlega. Það er mjög mikilvægt að sú löggjöf sem við búum við verði endurskoðuð. Hún er mjög opin og miklu opnari en í nágrannalöndum okkar,“ bætti hún við.

Margt í EES-samningnum sem þarf að ræða

Hún nefndi einnig mikilvægi þess að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem hefur verið á stefnuskrá hreyfingarinnar frá stofnun.

Þrátt fyrir mikilvægi þessarar umræðu sagði hún að ryki hefði verið þyrlað upp í umræðum um þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

„Það er margt í EES-samningum sem við eigum að ræða, þjónustutilskipun og reglugerðir um ólögmæta ríkisaðstoð. En höldum okkur við staðreyndir og tökum umræðuna alvarlega,“ bætti Katrín við.

Ari Trausti Guðmundsson þingmaður VG lét sig ekki vanta á …
Ari Trausti Guðmundsson þingmaður VG lét sig ekki vanta á fundinn. Ljós­mynd/​Steinþór Rafn Matth­ías­son
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert