Mikilvægt að varast þjóðrembu

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við verðum að vera á verði gagnvart þeirri vá sem öfgar og þjóðremba geta valdið og ég vil vekja sérstaklega máls á nauðsyn þess í öflugum lýðræðissamfélögum að við þolum gagnrýna umræðu um sögu og samtíð.“

Þetta segir Guðni Th. Jóhannesson forseti í samtali við mbl.is, en hann er á leið til Varsjár í Póllandi þar sem hann mun, ásamt öðrum þjóðarleiðtogum, taka þátt í minningarathöfn í tilefni þess að 80 ár eru á morgun liðin frá því herir Þýskalands réðust inn í Pólland og markar sá atburður upphaf seinni heimsstyrjaldar.

Þónokkur fjöldi þjóðarleiðtoga verður samankominn í pólsku höfuðborginni, en Guðni segir kannski frekar áberandi hverjir mæti ekki. Donald Trump Bandaríkjaforseti aflýsti komu sinni vegna fellibyljar sem gengur yfir Flórída, þar sem neyðarástandi hefur verið lýst yfir, en í hans stað mætir tilvonandi Íslandsvinurinn Mike Pence varaforseti. Þá mun Vladimir Pútín Rússlandsforseti ekki mæta.

„Saga Póllands og valdhafa í Moskvu er flókin og mikil átakasaga. Því má náttúrlega ekki gleyma að síðar í september [1939] réðust herir Sovétríkjanna inn í Pólland að austan í samræmi við leyniviðauka griðarsamkomulags Hitlers og Stalíns. Það má sennilega rekja fjarveru Pútíns að hluta til þess,“ segir forsetinn, en bætir við að Pútín hafi þó áður sótt viðburði í Póllandi til minningar um styrjöldina ægilegu.

Annað kvöld situr Guðni hátíðarkvöldverð í boði Andrzej Duda, forseta Póllands. Pólskum stjórnvöldum hefur víða verið legið á hálsi fyrir þjóðernishyggju og fleira, svo sem baráttu gegn frjálsum fjölmiðlum, tjáningarfrelsi, rétti til fóstureyðinga og réttindum hinsegin fólks. Spurður hvort hann hyggist vekja máls á þessum málefnum segist Guðni ekki munu hitta flokksleiðtoga eða funda einslega með stjórnmálamönnum, enda viðburðurinn fjölmennur. Því sé þetta ekki vettvangurinn til slíkrar umræðu.

Hann vilji þó nýta minningarviðburðinn til að vekja athygli á skuggahliðum öfga og þjóðrembings, og samdi af því tilefni yfirlýsingu sem gefin verður út á vef forsetaembættisins, forseti.is, á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert