Hergögn streyma til landsins

MV-22 Osprey sést hér í forgrunni. Myndin er tekin á …
MV-22 Osprey sést hér í forgrunni. Myndin er tekin á Keflavíkurflugvelli í október sl. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Minnst fimm bandarískar herflutningavélar lentu í dag á Keflavíkurflugvelli. Með þeim í för eru þrjár vélar af gerðinni MV-22 Osprey, en slík tæki voru seinast hér við land þegar Trident Juncture, umfangsmesta æfing Atlantshafsbandalagsins (NATO) frá árinu 2015, var haldin í október síðastliðnum.

Samkvæmt heimildum mbl.is tengjast vélar þessar komu Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna, hingað til lands. Er hann væntanlegur á miðvikudag. Þær herflutningavélar sem nú má sjá á Keflavíkurflugvelli eru af gerðinni C-130 Hercules og Lockheed C-5 Galaxy. 

Morgunblaðið og mbl.is hafa undanfarið greint frá aukinni viðveru bandarískra hersveita á Íslandi. Nýverið komu hingað til lands tvær bandarískar herþyrlur vegna komu varaforsetans. Sáust þær m.a. á flugi yfir höfuðborginni. Þá lenti langdræg sprengjuflugvél, af gerðinni Northrop B-2 Spirit, á Keflavíkurflugvelli, 28. ágúst sl. 

B-2 er ein fullkomnasta sprengjuvél Bandaríkjamanna, torséð á ratsjám og fyrst hönnuð til að bera kjarnavopn. Er þetta í fyrsta skipti sem flugvél af þessari gerð lendir á Íslandi.

Osprey-vélarnar sem nú eru hér á landi eru nokkuð frábrugðnar venjulegum flugvélum. Eru þær með fasta vængi en unnt er að breyta stöðu hreyflanna þannig að þær taki sig á loft eins og þyrla. Þegar vélar af þessari gerð voru seinast hér á landi, í október sl., voru þær nýttar til að ferja bandaríska landgönguliða til og frá landinu.

Telja má líklegt að Mike Pence muni ræða við íslenska ráðamenn um öryggis- og varnarmál í heimsókn sinni, en bandarískar hersveitir hafa aukið nokkuð veru sína hér við land undanfarnar vikur og mánuði, m.a. með heræfingum, loftrýmisgæslu og tíðum millilendingum á Keflavíkurflugvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka