Skora á þingheim að hafna pakkanum

Orkupakkinn klárast meðatkvæðagreiðslu í þinginu í dag.
Orkupakkinn klárast meðatkvæðagreiðslu í þinginu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar Orkunnar okkar munu í dag afhenda forseta Alþingis undirskriftir við áskorun félagsins um að hafna þriðja orkupakkanum, að sögn Frosta Sigurjónssonar, eins talsmanna Orkunnar okkar. Atkvæðagreiðsla um orkupakkann fer fram í dag en fundur þingforseta og Orkunnar okkar verður áður en atkvæðagreiðslan hefst.

Þingflokksformenn sem Morgunblaðið ræddi við í gær áttu sumir hverjir von á því að atkvæðagreiðslan gæti tekið nokkurn tíma. Margir þeirra töldu málið útrætt, en deilt hefur verið um hvort nokkuð nýtt hafi komið fram í málinu á sumarþinginu sem nú lýkur senn.

16.700 skrifað undir

Líklegt má telja að þriðji orkupakkinn verði samþykktur í dag. Frosti segir að barátta Orkunnar okkar haldi áfram, fari svo. „Baráttan fyrir fullu forræði Íslendinga yfir eigin orkumálum heldur áfram,“ segir hann. „Orkupakkinn tekur ekki gildi nema forsetinn samþykki hann. Forsetinn gerir samninga við erlend ríki samkvæmt 21. gr. stjórnarskrárinnar. Við munum skora á forsetann að fallast ekki á þetta og höfum birt honum slíka áskorun. Það er næsta skref,“ segir Frosti. Verði forsetinn ekki við þessu verði skorað á hann að samþykkja ekki þau frumvörp sem leiða af orkupakkanum, t.d. um breytingar á lögum um orkustofnun o.fl.

„Ef allt þetta bregst heldur baráttan áfram, það kemur orkupakki fjögur, kosningar og síðan næstu kosningar. Þá munum við biðja alla stjórnmálaflokka að gefa upp hver afstaða þeirra er til orkumála svo að kjósendur geti valið flokka. Þetta er sannarlega eitt mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar. Engin þjóð á meira undir raforkumálum en Íslendingar. Við erum tvöfalt meiri raforkuþjóð en Norðmenn miðað við íbúafjölda,“ segir Frosti, en sem fyrr segir mun Orkan okkar afhenda þingmönnum áskorun um að hafna orkupakkanum. „Um miðjan dag í dag [í gær] höfðu rúmlega 16.700 einstaklingar tekið undir þessa áskorun, bæði skriflega og á netinu,“ segir Frosti í ítarlegri umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. „Klukkan 10.30, þegar atkvæðagreiðsla fer að hefjast um orkupakkann, hafa þingmenn fengið þessar áskoranir í hendurnar,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert