Þotu Icelandair snúið við vegna bilunar

Farþegar á leið til Zürich ganga frá borði Boeing 757-þotu …
Farþegar á leið til Zürich ganga frá borði Boeing 757-þotu Icelandair í Keflavík í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Farþegaþotu Icelandair sem var á leið frá Keflavík til svissnesku borgarinnar Zürich í morgun var snúið við vegna bilunar. Lenti vélin aftur á Keflavíkurflugvelli á níunda tímanum.

Flugstjóri vélarinnar óskaði eftir því að fá að koma aftur inn til lendingar eftir að bilunar varð vart í hægri hreyfli hennar, en samkvæmt heimildum mbl.is slökkti flugstjórinn á hreyflinum eftir að olíuþrýstingur féll og flaug vélin á einum hreyfli til baka. Flugvélin lagði af stað frá Keflavíkurflugvelli kl. 7:18 í morgun.

Um er að ræða þotu af gerðinni Boeing 757-256 með skráningarnúmerið TF-ISV og gengur hún undir nafninu Grábrók.

Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair staðfestir í samtali við mbl.is að um bilun í öðrum hreyfli vélarinnar hafi verið að ræða. Þotan sem um ræðir mun ekki fljúga frekar í dag.

Búið er að ákveða að láta aðra flugvél annast flugið til Zürich, sem nú er ráðgert að fari í loftið á ellefta tímanum.

Flugstjóri vélarinnar óskaði eftir því að fá að koma inn …
Flugstjóri vélarinnar óskaði eftir því að fá að koma inn til lendingar þegar vélin var komin skammt suður fyrir landið. Skjáskot af FlightRadar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert