Farþegaþotu Icelandair sem var á leið frá Keflavík til svissnesku borgarinnar Zürich í morgun var snúið við vegna bilunar. Lenti vélin aftur á Keflavíkurflugvelli á níunda tímanum.
Flugstjóri vélarinnar óskaði eftir því að fá að koma aftur inn til lendingar eftir að bilunar varð vart í hægri hreyfli hennar, en samkvæmt heimildum mbl.is slökkti flugstjórinn á hreyflinum eftir að olíuþrýstingur féll og flaug vélin á einum hreyfli til baka. Flugvélin lagði af stað frá Keflavíkurflugvelli kl. 7:18 í morgun.
Um er að ræða þotu af gerðinni Boeing 757-256 með skráningarnúmerið TF-ISV og gengur hún undir nafninu Grábrók.
Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair staðfestir í samtali við mbl.is að um bilun í öðrum hreyfli vélarinnar hafi verið að ræða. Þotan sem um ræðir mun ekki fljúga frekar í dag.
Búið er að ákveða að láta aðra flugvél annast flugið til Zürich, sem nú er ráðgert að fari í loftið á ellefta tímanum.