Arnar Þór Ingólfsson
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að boðuð lækkun á tekjuskatti einstaklinga sé „stóru tíðindin“ í því fjárlagafrumvarpi sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í morgun.
Með frumvarpinu verður skattþrepunum fjölgað upp í þrjú fyrr en áætlað var, í tveimur áföngum en ekki þremur áföngum eins og ríkisstjórnin hafði áætlað.
„Við erum að flýta þessari aðgerð, sem bæði er hugsuð til þess að lækka tekjuskatt sérstaklega hjá tekjulægri hópunum og skilar meiri lækkun til tekjulægstu hópanna en þeirra tekjuhærri, og líka að innleiða aukinn jöfnuð í gegnum þrepaskipt skattkerfi,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi fyrr í dag.
„Þegar lífskjarasamningunum var lokað í vor og okkar aðgerðir kynntar var þetta eitt af því sem forystufólk verkalýðshreyfingarinnar lagði áherslu á, að við myndum skoða hvort við gætum gert þetta hraðar en áður var áætlað. Ég tel að við séum að mæta þeirri kröfu með þessu og vona að það mælist vel fyrir,“ segir forsætisráðherra, sem nefnir einnig sérstaklega að jákvætt sé að í fjárlögum sé gert ráð fyrir því að barnabætur hækki.