Höfin bæði aðskilja og sameina

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Ram Nath Kovind, forseti …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Ram Nath Kovind, forseti Indlands á Bessastöðum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Úthöfin kunna að aðskilja okkur en þau sameina okkur líka,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í ávarpi sem hann flutti á Bessastöðum í dag eftir að undirritaðir höfðu verið þrír samningar á milli Íslands og Indlands, samkomulag um vegabréfsáritanir, áætlun um samstarf í menningarmálum og samstarfssamning á sviði fiskveiða.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðstaddur undirritun samninganna var einnig Ram Nath Kovind, forseti Indlands, og föruneyti hans en hann er staddur í opinberri heimsókn á Íslandi. „Við viljum trúa því hér á Íslandi að við höfum margt að bjóða þegar kemur að sjálfbærum fiskveiðum. Við hlökkum til þess að þróa samstarf okkar á þessu sviði enn frekar,“ sagði Guðni.

Sagðist hann hafa fulla trú á því að Íslendingar og Indverjar ættu samleið á fjölda annarra sviða. Þótt mikill stæðarmunur væri á löndunum tveimur og talsvert langt á milli þeirra þá deildu þjóðirnar vonum um bjarta framtíð fyrir borgara sína. Framtíð velferðar og öryggis, frelsis einstaklingsins og jafnréttis kynjanna.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Forseti Indlands tók undir með Guðna um að fjölmörg tækifæri væru fyrir samstarf á milli Íslands og Indlands. Fagnaði hann fjölgun indverska ferðamanna til Íslands og viðraði þá von sína að fleiri íslenskir ferðamenn ættu eftir að heimsækja Indland. Sagðist hann hlakka til frekara samstarfs við Guðna við að styrkja tengsl landanna.

Þá upplýsti Kovind að hann hefði boðið Guðna í opinbera heimsókn til Indlands og að Guðni hefði þegið boðið.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert