Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði í gær aðildarríkjaþing Eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna (UNCCD) fyrir Íslands hönd. Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að ríki heims reyndu að tryggja sjálfbæra landnýtingu og endurheimt vistkerfa til að sporna við hamfarahlýnun af mannavöldum.
Ráðherra sagði loftslagsaðgerðir Íslands miða að því að vinna samtímis gegn loftslagsbreytingum og eyðimerkurmyndun, auk þess að efla lífríkið og líffræðilega fjölbreytni. Íslensk stjórnvöld hefðu sett loftslagsmálin á oddinn og markmiðið væri að Ísland myndi ná kolefnishlutleysi í síðasta lagi árið 2040.
Stóraukin áhersla væri nú lögð á kolefnisbindingu á Íslandi og markvissar aðgerðir þegar hafnar – landgræðsla og skógrækt myndu tvöfaldast á næstu árum og endurheimt votlendis tífaldast með auknum aðgerðum stjórnvalda.
Guðmundur Ingi rifjaði upp að hann hefði séð fjóra jökla frá sveitabænum þar sem hann ólst upp vestur á Mýrum.
„Í dag sé ég einungis þrjá. Einn er horfinn vegna loftslagsvárinnar og annar líklegur til að hverfa á næstu 40 árum,“ sagði hann. „Jöklar eru stórbrotin náttúrufyrirbrigði. Og á Íslandi hefur bráðnun þeirra orðið tákn fyrir loftslagsvána.“
Guðmundur Ingi benti á að Ísland hefði yfir 100 ára reynslu af landgræðslu og að endurheimta land. Þeirri reynslu vildi Ísland miðla til umheimsins, til að mynda í gegnum Landgræðsluskóla Háskóla SÞ á Íslandi.