„Við stefnum að því á haustdögum,“ segir Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, um hvenær ný vegtenging frá Odda á Rangárvöllum yfir á Bakkabæjaveg með brú yfir Þverá kemst í gagnið. Brúin verður 92 metra löng og vegurinn sem þarf að leggja er um 2 km langur.
Verkinu miðar vel og er öll uppsteypa búin. Núna er beðið eftir stálbitum sem eru unnir á Seyðisfirði. „Um leið og þeir eru klárir kemur verktakinn og klárar þetta,“ segir Ágúst. Verktakinn sem um ræðir er Mikael ehf. frá Höfn í Hornafirði. Vegagerð beggja vegna brúarinnar er langt komin en þegar lokið verður að byggja brúna þarf að breyta farvegi árinnar og klára veginn.
„Það er mikil tilhlökkun hjá okkur að fá þessa miklu samgöngubót. Þetta er öryggisvegur, styttir vegalengdir mikið og býr til nýja leið. Það er líka gott að geta dreift ferðamönnum betur um svæðið,“ segir Ágúst.
Ekki verður sett klæðning strax á veginn og verður því malarvegur þar fyrst um sinn. Vegurinn verður malbikaður í næsta áfanga en ekki liggur fyrir hvenær það verður. Verkefnið kostar um 170 milljónir króna.