Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upplýst rán sem var framið í fyrirtæki í miðborginni í byrjun mánaðarins að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Starfsmanni var ógnað í ráninu og hótað með mjög grófum hætti, að því er segir í tilkynningunni, áður en ræninginn komst undan með talsvert af reiðufé.
Ræninginn, karlmaður um þrítugt, var handtekinn fyrr í vikunni og játaði hann verknaðinn við yfirheyrslu hjá lögreglu.
„Starfsmanninum í fyrirtækinu var eðlilega mjög brugðið, en hann brást hárrétt við í afar erfiðum aðstæðum. Tekist hefur að endurheimta stóran hluta af ránsfénu.“
Enn fremur segir að í upphafi hafi verið á mjög litlu að byggja við rannsókn lögreglu, en strax hafi sporleitarhundar verið fengnir til aðstoðar.
„Þá var farið yfir mikið af myndefni úr eftirlitsmyndavélum í miðborginni, bæði eftirlitsmyndavélum lögreglu og fyrirtækja, og það varð til þess að lögreglan fékk vísbendingar sem að lokum leiddu til handtöku ræningjans.“