„Sagan er dýrmæt en framtíðin er einfaldlega dýrmætari. Það er dýrmætt að hlakka til morgundagsins,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sinni á flokksráðs- og formannafundi Sjálfstæðisflokksins í dag.
Þórdís fór yfir víðan völl í ræðu sinni en hún beindi spjótum sínum að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, og vinstrimönnum. Lungi ræðunnar fjallaði þó um framtíð Sjálfstæðisflokksins.
Þórdís sagði sögu flokksins glæsta en sagan væri ekki mikilvægari en það sem flokkurinn beitti sér fyrir hér og nú. Velmegun hefði aldrei verið meiri á Íslandi en einmitt nú, ekki lífskjörin heldur og ráðstöfunartekjur Íslendinga hefðu hækkað mikið, sér í lagi hjá þeim sem eldri væru.
„Eru þetta ímyndar stjórnmálin? Snýst þetta bara um ásýndina? Nei, þetta eru alvörustjórnmál,“ sagði Kolbrún og tók þannig undir með Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins, sem komst að svipaðri niðurstöðu í sinni ræðu.
Kolbrún kom inn á það að kosningahegðun Íslendinga væri að breytast. Kjósendur festu sig ekki endilega við einn flokk alla ævi og það væri gott. Til þess að höfða til kjósenda væri mikilvægt að horfa til framtíðar.
„Við megum aldrei vera uppteknari af því að horfa til baka en fram á veginn,“ sagði Þórdís.
„Stjórnmálaflokkar fá ekkert gefins í kosningum. Stjórnmálaflokkar sem skilja framtíðina eiga erindi við framtíðina og þar þurfum við að tala mjög skýrt.“
Þórdís gagnrýndi vinstrimenn fyrir að vera ekki jafn glaðir og hægrimenn.
„Í mínum huga höfum við hægrimenn alltaf haft vinninginn þegar kemur að gleðinni. Með fullri virðingu fyrir vinstrimönnum þá hættir þeim til að hafa allt á hornum sér, að lítast ekki á blikuna, að sjá hættur og vandamál í hverju horni. Oftar en ekki hættur og vandamál sem ríkið þarf að leysa,“ sagði Kolbrún og hélt áfram:
„Það er stundum eins og vígur þeirra sé: „Heimur versnandi fer.“ Og þegar heimur fer versnandi þá er svarið fortíðin. Að hverfa aftur til gamla tímans.“
Þórdís uppskar mikið lófaklapp er hún ræddi aðkomu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að þriðja orkupakkanum. Sigmundur var mjög andvígur samþykkt hans eins og flestum er kunnugt.
Þórdís gagnrýndi sérstaklega þá staðreynd að Sigmundur hefði á sínum tíma stofnað sérstakan starfshóp með David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, vegna þriðja orkupakkans. „Bara af því að hann var með svo miklar efasemdir um málið.“
Þórdís sagði það jafnast á við það ef Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði stofnað sérstakan starfshóp með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til þess að kanna fýsileika þess að staðsetja kjarnorkusprengjur í Keflavík, bara vegna þess að hún hefði svo miklar efasemdir um málið.
Að lokum sagði Þórdís mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn leitaði leiða til að minnka umsvif hins opinbera og minnka kostnaðinn við opinbera kerfið.
„Flokkur sem er hægra megin við miðju verður að tala skýrt í þessum efnum því enginn annar flokkur mun gera það.“