Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þær deilur sem hafa staðið yfir innan lögreglunnar séu alls ekki gott ástand. Hún segir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, muni fara yfir þessi mál og eiga samtal við alla viðkomandi aðila á komandi dögum.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagði í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið í gær gagnrýnina á embættið að undanförnu hluta af markvissri rógsherferð. Markmiðið væri að hrekja hann úr embætti. Rangfærslum væri vísvitandi dreift sem og rógburði um hann.
„Þetta er auðvitað ekki ástand sem getur varað svona í opinberri umræðu,“ sagði forsætisráðherra sem var gestur Heimis Más Péturssonar í þættinum Víglínan á Stöð 2.
Fram hefur komið að stjórn Landssambands lögreglumanna telji ákvörðun dómsmálaráðuneytis um að fara fram á alhliða stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra löngu tímabæra.
Ríkislögreglustjóri hefur m.a. sagt að hann telji að tímabært sé að hugað verði að framtíðarskipan lögreglu og skynsamlegt væri að stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda myndi beinast að heildarendurskoðun lögreglumála í landinu.
„Ríkisendurskoðun er að fara í stjórnsýsluúttekt og ég held að það sé skynsamlegt að bíða þess og sjá hvað kemur út úr þeirri úttekt,“ sagði Katrín ennfremur.
Hún tók fram að hún ætlaði ekki að fara inn í þessar opinberu deilur innan raða lögreglunnar.
„Það skiptir máli að við búum vel að lögreglunni en þetta ástand getur ekki varað áfram.“