„Einhverjum hefði kannski þótt furðulegt fyrir nokkrum árum ef fjármálaráðherra væri umhugað um hamingju,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar hann steig í pontu á ráðstefnu um velsældarhagkerfi í Háskóla Íslands í morgun.
Bjarni talaði um mikilvægi OECD og sagði það gott að fá „bunka af gögnum þaðan í fangið“ eins og hann orðaði það og leit í áttina að Angel Gurria, framkvæmdastjóra OECD, sem sat á fremsta bekk í hátíðarsal HÍ.
Gurria er staddur hér á landi í þeim tilgangi annars vegar að taka þátt í ráðstefnunni Háskóla Íslands. Hins vegar liggur leið hans í fjármála- og efnahagsráðuneytið í dag þar sem hann kynnir OECD Economic Survey of Iceland, úttekt sem unnin er og kynnt á tveggja ára fresti.
Fram kemur í samantekt nefndar forsætisráðherra um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði að mörg ríki og alþjóðastofnanir hafi útbúið söfn mælikvarða um það efni.
Þróun slíkra mælikvarða er, samkvæmt vinnu nefndarinnar, skref í þá átt að tryggja sameiginlegan skilning á því hvaða þættir gera líf okkar betra. Alls eru mælikvarðarnir í aðal- og undirflokkum 39 en þeir eru í þremur flokkum; félagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum.
Fjármálaráðherra sagði dæmisögu af því þegar sonur hans byrjaði í skóla fyrir fimmtán árum:
„Þegar nokkrar vikur voru búnar af skólanum hitti ég skólastjórann og spurði hvernig stráknum gengi í skólanum. Hann svaraði því til að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur, ef strákurinn væri hamingjusamur myndi þetta ganga,“ sagði Bjarni.
Ráðherra talaði um að mælikvarðar á borð við hagvöxt væru enn mikilvægir en auk þess þyrfti að víkka sjóndeildarhringinn. Hann minntist einnig á að staða Íslands væri góð, ellefu árum eftir bankahrunið, en sagði að það væri aldrei tími fyrir andvaraleysi.
Bjarni fór yfir það að honum þætti margt hafa breyst til betri vegar síðan hann settist á þing fyrir sextán árum. Þá, árið 2003, sat hann í fjárlaganefnd.
„Við sátum þarna ellefu á fundi og einn fundarmanna vildi ræða eitthvert smáatriði,“ sagði Bjarni og bætti við að þá hefði allur umræddur fundur fjárlaganefndar farið í það smáatriði.
„Núna tel ég að við hugsum meira um stóru málin og lengra fram í tímann,“ sagði Bjarni og taldi það gott.