Fjórtán þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi fordæmi „ólöglega og ómannúðlega meðferð bandarískra stjórnvalda á flóttabörnum og fjölskyldum þeirra við landamæri Bandaríkjanna“ og feli ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að sundrun fjölskyldna í leit að alþjóðlegri vernd verði hætt.
Fram kemur í greinargerð að samkvæmt bandaríska heilbrigðisráðuneytinu hafi þúsundir barna verið teknar við landamæri og fluttar í sérstakar flóttamannabúðir, ætlaðar börnum og ungmennum, fjarri fjölskyldum þeirra. „Þá hefur einnig komið fram að skráningu og utanumhaldi bandarískra stjórnvalda á þeim börnum sem brottnumin hafa verið á landamærunum sé mjög ábótavant og því er það svo að fjöldi barna sem skilin voru frá fjölskyldum sínum er enn óþekktur.“
Þá virðast mörg þeirra þúsunda barna sem tekin hafa verið horfin, ferðir þeirra órekjanlegar og bandarísk stjórnvöld geta engu svarað um hvað varð um þau. „Fregnir af þessu komust í hámæli árið 2018 og þá brást alþjóðasamfélagið við með skýrum skilaboðum og hvatningu til bandarískra stjórnvalda um að hætta með öllu að skilja börn frá foreldrum sínum á landamærum, enda slík stefna óforsvaranleg og brot á þarlendum sem erlendum sáttmálum, sem ætlað er að tryggja að mannréttindi séu ekki brotin.“
Fyrsti flutningsmaður er Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, en meðflutningsmenn koma auk Samfylkingarinnar úr Viðreisn, Pírötum og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði.