Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur hafnað lögbannskröfu Neytendasamtakanna á innheimtufyrirtækið Almenna innheimtu ehf. og forsvarsmann þess Gísla Kr. Björnsson.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Samtökin kröfðust lögbannsins vegna þess að þau telja fyrirtækið beita ólögmætum aðferðum við innheimtu krafna þannig að hlutfallstala kostnaðar sé mun hærri en lög heimili.
Breki segir að rökstuðningur sýslumanns hafi verið á þá leið að fólk geti sjálft sótt kröfur sem það eigi inni hjá fyrirtækinu.
„Við ætlum að áfrýja þessu og fara með málið fyrir dóm,“ segir Breki. „Við unum þessu ekki og teljum almannaheill vera undir.“
Krafa Neytendasamtakanna var sett fram með aðstoð VR. Von er á frekari aðgerðum gegn smálánafyrirtækjunum og þeim fyrirtækjum sem aðstoða þau við að viðhalda ólöglegri starfsemi gegn neytendum sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér.