Sjö flutningabílstjórar stöðvuðu bíla sína í einfaldri röð á Kringlumýrarbraut í dag til þess að leggja sig í samræmi við hvíldarákvæði laga. Lögregla hafði afskipti af mönnunum eftir ábendingu og vísaði þeim á brott, n.t.t. upp á Esjumela, en þeir sögðust vera á norðurleið. Bílarnir voru í stærri kantinum og allir eins merktir og frá sama fyrirtæki. Ekki er vitað hvað flutt var í bílunum, að því er fram kemur í máli Guðbrands Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrst var greint frá málinu á Vísi.
„Ég man aldrei til þess áður að menn taki upp á því að leggja ökutækjum sínum á stofnbrautakerfinu. Hins vegar er það þekkt að ökutæki bili og menn koma þeim illa í burtu. Láta þá lögreglu vita og séu að gera ráðstafanir til að láta fjarlægja þá, þ.e. með þríhyrning fyrir aftan og með neyðarljósin á. Ef þeir fara ekki innan ákveðins tíma lætur lögregla fjarlægja þá, því þetta er hættulegt á stofnbrautakerfinu,“ segir Guðbrandur.
„Það var tilkynnt um þessa bíla og lögreglumenn á bifhjólum fóru á vettvang. Þeir þurftu að banka á rúðurnar af því að það var búið að draga fyrir gardínur í einhverjum bílanna og bílstjórarnir lagstir aftur í koju,“ segir hann.
Tungumálaörðugleikar erfiðuðu lögreglu verkefnið.
„Þetta voru Frakkar sem töluðu illa eða ekki ensku og þeim skildist helst á þeim að þeir væru að virða hvíldarákvæði og hvíla sig. Þeim var gert að fara tafarlaust í burtu með bílana,“ segir Guðbrandur. Ökumennirnir fóru í fylgd lögreglu upp á Esjumela og fóru síðan sína leið eftir að hafa fengið fyrirmæli frá lögreglu um að velja sér svæði eða stað þar sem tryggt væri að þeir trufluðu ekki eða yllu hættu fyrir umferð.
Guðbrandur segir að lögreglumennirnir hafi ekki komist svo langt í samskiptum við mennina að þeir hafi getað komist að því hvaða ferðalag væri á Frökkunum. „Ekki að öðru leyti en því að þeim tókst að vekja þá og koma þeim í burtu þannig þeir væru ekki að trufla og tefja og gætu þá mögulega hvílt sig,“ segir hann, en á Esjumelum er þó ekki skilgreint hvíldarsvæði fyrir ökumenn. „Mér vitanlega eru engin hvíldarstæði inni á eða nálægt höfuðborgarsvæðinu,“ segir Guðbrandur.
En þeir hafa ekki haft neinn ásetning til að brjóta af sér?
„Það skildist mér. Þeir virtust ekki átta sig á því að þeir væru að brjóta neinar reglur af því að þeir legðu við hægri brún vegar og þarna væru þrjár akreinar. Við höfum ekki upplifað þetta,“ segir Guðbrandur.