Útflutningur sorps til brennslu „skárri en versti kosturinn sem er að urða“

Árlega eru urðuð um 220 þúsund tonn af sorpi hér …
Árlega eru urðuð um 220 þúsund tonn af sorpi hér á landi, til samanburðar jafngildir það að grafa 20 Effel-turna af rusli ofan í jörðu. mbl.is/Rax

„Að flytja ruslið út til brennslu er skammtímalausn. Þetta er næstversti kosturinn en hann er skárri en versti kosturinn sem er að urða,“ segir Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins, um átakið Hættum að urða - finnum lausnir sem fyrirtækið hleypti af stokkunum nýverið. Skorað er á stjórnvöld að hætta urðun á sorpi en í millitíðinni vill fyrirtækið flytja sorpið út til brennslu í orkuendurvinnslu. 

Árlega eru urðuð um 220 þúsund tonn af sorpi hér á landi, til samanburðar jafngildir það að grafa 20 Effel-turna af rusli ofan í jörðu. „Mér finnst ekki komast almennilega til skila hversu hættulegt það er fyrir umhverfið að urða rusl. Mikið metangas myndast við urðunina hér því þetta er blandað með pappa, plasti, matarafgöngum og öllum fjandanum. Eiturefni seytla um jarðveginn og út í grunnvatnið,“ segir Jón. 

Hann bendir á að umhverfisávinningurinn sem fæst með því að flytja sorp til brennslu í orkuveri í Evrópu jafngildir því að nærri 107 þúsund bílar hverfi af götunum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið ReSource International vann að beiðni Íslenska gámafélagsins til að kanna nákvæmlega hver umhverfislegur ávinningur er af því að flytja sorpið út til útlanda til brennslu í stað urðunar.

Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins.
Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta er raunverulegur kostur sem hægt er að byrja á núna strax. Við viljum benda fólki á að það er hægt að breyta þessu núna,“ segir Jón. Hann tekur fram að nauðsynlegt sé að halda áfram að finna lausnir á því að endurvinna úrgang betur hér heima. Fyrirtækið heldur áfram að vinna að lausnum í þeim málum sem og að styðja önnur sem gera slíkt hið sama. Samkvæmt þessari skýrslu er til dæmis ekki hagkvæmt í dag að byggja sorpbrennslustöð hér á landi. Kannski verður það hagkvæmara eftir nokkur ár, að sögn Jóns. 

„Við getum líka öll flokkað mikið meira og betur og notað miklu, miklu minna ef við hugsum um hvað við kaupum. En við verðum að byrja. Við viljum vekja athygli á því,“ segir Jón.  Núna erum við í vandræðum með urðunarstaði á Íslandi til að mynda er allt almennt sorp af Suðurlandi flutt í Borgarfjörð eða á Norðurland vestra skammt frá Blönduósi til urðunar. Sorp íbúa á Norðurlandi er einnig flutt til Blönduóss til urðunar. 

„Landið verður ónýtt að eilífu. Það er sláandi að eftir 20 ár í þessum geira að hlusta á sveitastjórnarfólk segja sífellt það sama; að þetta sé ódýrasti kosturinn, það eigi ekki annarra kosta völ. Það er urðað jafnvel með það að leiðarljósi að þetta verði grafið seinna upp úr jörðinni til að endurnýta. Þetta sjónarmið er svo galið að það er ekki afsökun fyrir þessu lengur,“ segir Jón. 

Á næsta ári flytur Íslenska gámafélagið í samstarfi við Samskip 30 þúsund tonn af sorpi til Rotterdam í Hollandi til orkunýtingar. Gerður hefur verið samningur til þriggja ára. Jón tekur fram að hægt sé að flytja mun meira út en þessi 30 þúsund tonn. 

Tómir gámar nýttir til að flytja út sorp til brennslu

„Þetta er betri nýting skipa á flutningaleiðum frá Íslandi. Skip fara frá landi oft tóm út því þau flytja meira inn til landsins en út. Við nýtum þessar ferðir. Auk þess sem skipaflutningar á hvert tonn eru miklu umhverfisvænn en að flytja með bílum innanlands,“ segir Jón spurður hvort það sé umhverfisvænt að flytja sorp út til brennslu. Ekki stendur til að halda úti sérstöku skipi sem flytur gagngert út sorp frá landi.

Jón vísar þeirri gagnrýni á bug að gróðasjónarmið sé hvatinn að þessu verkefni. „Það er alveg rétt að ég er í viðskiptum og þarf að sýna fram á að það sem ég geri sé arðbært. Fyrirtæki hljóta að mega koma með lausnir án þess að það sé alltaf sett spurningarmerki um að það séu aðrir hagsmunir á bak við það. Hér hafa fyriræki leitt þróunina í flokkunarmálum og reynt að fá stjórnvöld til að gera betur í þessum málaflokki en ekki öfugt. Við eigum bara þetta eina Ísland og það er ansi verðmætt. Við getum ekki lengur bara mokað draslinu ofan í jörðu,“ segir Jón.  

Hér er hægt að skrá sig og skora á stjórnvöld um að hætta að urða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert