Heimilt verður að kaupa áfengi í netverslunum hér á landi, samkvæmt frumvarpi sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi í mars á næsta ári.
Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV.
Þar segir að nái frumvarpið fram að ganga verði einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengissölu hér á landi í raun afnumið.
Þrátt fyrir að ÁTVR hafi einkaleyfi á smásölu áfengis er heimilt að kaupa áfengi í gegnum erlendar vefverslanir. Þar fær kaupandi vöru senda heim að dyrum en greiðir áfengisgjald og virðisaukaskatt af sendingu.
Áslaug Arna benti á í samtali við mbl.is fyrir rétt tæpum fjórum árum hversu auðvelt það væri að panta vín að utan án aðkomu ÁTVR.
„DHL kemur bara með þetta heim til mín beint upp að dyrum án nokkurrar aðkomu ÁTVR og maður borgar áfengistoll af þessu við hurðina,“ sagði Áslaug, þá laganemi og ritari Sjálfstæðisflokksins, við mbl.is.