Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í samtali við mbl.is að ummæli Gylfa Zoëga, prófessors í hagfræði og fulltrúa í peningastefnunefnd Seðlabankans, um Icelandair hafi verið ógætileg fyrir mann í hans stöðu. Gylfi var gestur á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun, ásamt Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra, þar sem skýrsla peningastefnunefndar fyrir fyrri hluta árs 2019 var til umræðu.
Sagði Gylfi m.a. á fundinum að efnahagshremmingar ferðaþjónustunnar væru hættulegar og það þyrfti að fylgjast með Icelandair. „Hvenær verður eigið fé þar komið á hættulegt stig? Það má ekki veðja þjóðarbúinu á að Icelandair fái fullar bætur frá Boeing,“ sagði Gylfi.
„Okkur finnst þetta nokkuð ógætileg ummæli fyrir mann sem situr í peningastefnunefnd,“ segir Bogi og bætir við, eins og hann hefur áður lýst, að lausafjárstaða félagsins sé sterk, og eiginfjárstaða líka. „Við höfum rekið þá stefnu að vera með sterkan efnahagsreikning vegna þess að við vitum að í flugrekstri koma upp atriði sem við höfum ekki alveg stjórn á, og hafa neikvæð áhrif á sjóðstreymi, og við erum því vel í stakk búin til að takast á við þessar krefjandi aðstæður.“
Þá segir hann, spurður frekar um ummæli Gylfa, að honum hafi þótt það „ekki rétt“ að beina augum að einu félagi.