Ræður þingmanna Miðflokksins í sérstakri umræðu um loftslagsmál og skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi féllu í grýttan jarðveg hjá öðrum þingmönnum sem til máls tóku í umræðunni.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var framsögumaður málsins og sat Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir svörum. Á annan tug þingmanna úr öllum flokkum tók þátt í umræðunni og voru flestir sammála um mikilvægi þess að taka umhverfismál föstum tökum og komu einhverjir með hugmyndir um hvernig mætti best standa að þeim málum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason voru þeir þingmenn Miðflokksins sem tóku til máls í umræðunni og sagði Sigmundur Davíð það t.a.m. mikilvægt að umræðan væri til þess fallin að skila árangri og að ekki væri æskilegt að viðhafa hræðsluáróður.
Þá væri nauðsynlegt að nálgast viðfangsefnið með tilliti til staðreynda og samhengis. Þannig væri það besta sem Ísland hefði gert í umhverfismálum að reisa álver, því hefðu samskonar álver verið reist í Kína hefðu þau losað tífalt meira af gróðurhúsalofttegundum.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, var fyrstur til að vekja máls á einstefnu Miðflokksins í þessum efnum og sagði að það væri ekki annað að skilja á Sigmundi Davíð en að það besta sem Íslendingar gætu gert væri að koma upp fleiri álverum. Þá gagnrýndi hann þingmanninn fyrir 20. aldar hugsun og þakkaði fyrir samhljóm annarra þingmanna.
Bergþór Ólason var næstur í ræðustól á eftir Kolbeini og sagðist þakklátur fyrir að hafa ekki verið á undan honum á mælendaskrá. Sagði Bergþór mikilvægt að ráðast í aðgerðir sem skiluðu árangri, því ekki væri raunhæft að Íslendingar færu að lifa í „sænskri hippakommúnu“ og sagði engin svör vera að fá um það hvaða árangri aðgerðir ríkisstjórnarinnar, svo sem kolefnisgjald og endurheimt votlendis, skiluðu.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, breytti upphaflegri ræðu sinni í kjölfar ræða þingmanna Miðflokksins og benti á að það væru vísindin, staðreyndir og samhengi hlutanna sem sýndu fram á loftslagsvána, en ekki „sænskar hippakommúnur“ og vísaði þannig í ummæli Bergþórs. Sagði Helgi Hrafn það ódýrt, einfalt og þægilegt að stilla sér upp á móti öllu sem gæti verið óþægilegt.
Forsætisráðherra tók undir með Helga Hrafni í annarri ræðu sinni. „Allt sem við gerum byggist á vísindum.“
„Það verða alltaf einhverjir sem munu reyna að standa í vegi fyrir breytingum. Breytingum sem munu skila okkur betra samfélagi, betri efnahag og betra umhverfi, en auðvitað verða alltaf þeir sem standa í vegi fyrir framförum á þeirri vegferð.“