„Við erum í lagi en heimurinn ekki“

Opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd um skýrslu peningastefnunefndar.
Opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd um skýrslu peningastefnunefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland er mjög dýrt land sem bygg­ir hag­vöxt sinn á at­vinnu­grein sem krefst ódýrs vinnu­afls. Það mun koma í ljós í lok árs hvort hin veiku fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ust­unni lifa af. Þetta sagði Gylfi Zoëga, pró­fess­or í hag­fræði og full­trúi í pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabank­ans, á opn­um fundi efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is í morg­un.

Gylfi var gest­ur á fund­in­um ásamt Ásgeiri Jóns­syni seðlabanka­stjóra og til umræðu var skýrsla pen­inga­stefnu­nefnd­ar Seðlabank­ans fyr­ir fyrri hluta árs 2019. Fund­ur­inn hófst með ávarpi þeirra Ásgeirs og Gylfa.

 Gylfi fór yfir or­sak­ir og af­leiðing­ar þeirr­ar niður­sveiflu sem ís­lenska hag­kerfið er nú í sem og stöðuna í efna­hags­mál­um er­lendra stór­ríkja á borð við Banda­rík­in og Þýska­land.

Má ekki veðja þjóðarbú­inu á að fá bæt­ur frá Boeing

Hann var ekki jafn bjart­sýnn og Ásgeir á efna­hags­horf­ur á Íslandi en sagði stöðuna þó góða. Við vær­um vel und­ir­bú­in und­ir sam­drátt, staða gjald­eyr­is­mála væri mjög já­kvæð og við gæt­um lækkað vexti eins og þyrfti til að byrja næstu upp­sveiflu. Or­sök niður­sveiflu væri fækk­un ferðamanna og hana mætti meðal ann­ars rekja til launa­kostnaðar.

 „Launa­kostnaður er of hár, þetta á við um flug­fé­lög­in. Hátt launa­hlut­fall veld­ur því að þetta land er mjög dýrt og það kem­ur í ljós núna í nóv­em­ber hvort hin veiku lifa af,“ sagði hann en bætti við að efna­hags­hremm­ing­ar ferðaþjón­ust­unn­ar væru hættu­leg­ar og það þyrfti að fylgj­ast með Icelanda­ir.

„Hvenær verður eigið fé þar komið á hættu­legt stig? Það má ekki veðja þjóðarbú­inu á að Icelanda­ir fái full­ar bæt­ur frá Boeing,“ út­skýrði hann.

Tímaspurs­mál hvenær næsta kreppa kem­ur

Gylfi tók fram að þrátt fyr­ir al­mennt já­kvæðar horf­ur hér á landi væri sam­drátt­ur í upp­sigl­ingu er­lend­is og að ástandið í heim­in­um væri „óeðli­legt“ og bætti því við að það yrði at­hygl­is­vert að sjá hvernig fjár­mála­markaður­inn er­lend­is myndi bregðast við næstu kreppu þegar hún kæmi. 

Hann sagði vexti víðast hvar alltof lága og ef og þegar kreppa kæmi þá væru ekki til nein tæki til að bregðast við. Þetta ætti við um Banda­rík­in, rík­is­stjórn­ir og seðlabanka Evr­ópu sem og Bret­land. Hann tók fram að þetta myndi hafa áhrif hér á landi en þó ekki valda stór­kost­leg­um áföll­um eins og árið 2008.

„Við erum í lagi en heim­ur­inn ekki,“ sagði hann og hlaut lof frá viðstödd­um fyr­ir skemmti­legt orðalag. Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, formaður Miðflokks­ins, grínaðist með að þetta væri ein­mitt mottó Miðflokks­ins.

Nefnd­ar­menn tor­tryggn­ir gagn­vart bjart­sýni

Eft­ir ávörp þeirra Ásgeir og Gylfa fengu þeir spurn­ing­ar frá nefnd­ar­mönn­um efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar og voru þær nokkuð marg­ar, lang­ar og flókn­ar. Svo marg­ar í raun að þegar fund­in­um var slitið höfðu ekki all­ir nefnd­ar­menn fengið tæki­færi til að spyrja gest­ina sinna spurn­inga.

Flest­ar spurn­inga nefnd­ar­manna lutu að því hvort of mik­ill­ar bjart­sýni gætti fyr­ir hag­vexti og horf­um í efna­hags­lífi á næsta ári.

Seðlabanka­stjóri tók vissu­lega und­ir þær áhyggj­ur og sagðist ótt­ast að staðan væri of góð til að vera sönn í ljósi þess hve efna­hags­horf­ur er­lend­is væru tví­sýn­ar. Gylfi varaði við því að við gerðum aft­ur sömu mis­tök og fyr­ir efna­hags­hrunið 2008.

Þá tók Gylfi fram að síðustu mánuðir hefðu verið góðir þrátt fyr­ir niður­sveiflu og að all­ir aðilar, stjórn­völd, vinnu­markaður og Seðlabank­inn, hefðu róið í sömu átt og staðið sam­an í fyrsta skipti í lang­an tíma.

Opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd um skýrslu peningastefnunefndar.
Op­inn fund­ur í efna­hags- og viðskipta­nefnd um skýrslu pen­inga­stefnu­nefnd­ar. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert