„Yrði bylting á húsnæðismarkaði“

Formaður VR bindur vonir við ríkisstyrki til íbúðakaupa sem ráðherra …
Formaður VR bindur vonir við ríkisstyrki til íbúðakaupa sem ráðherra boðar 2020. mbl.is/Golli

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, reiknar með að aðgerðir til að styðja við íbúðakaup fyrstu kaupenda og tekjulágra verði kynntar fyrir áramót. Raunhæft sé að úrræðin taki gildi sumarið 2020.

Stýrihópur á vegum Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, hefur verið í kynnisferð í Skotlandi og Bretlandi og skoðað útfærslu eiginfjárlána. Fulltrúar frá ASÍ, Íbúðalánasjóði og Sambandi íslenskra sveitarfélaga eru í hópnum. Aðgerðirnar voru til umræðu við gerð lífskjarasamninga.

Ráðherra fól starfshópi að kanna leiðir til að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Hópurinn kynnti tillögurnar í apríl og sagði ráðherrann þá að tillaga um eiginfjárlán yrði skoðuð með lagasetningu í huga. Gekk hún út á að ríkið veitti eiginfjárlán sem gætu numið 15-30% af kaupverði og væru án afborgana. Þau skyldu afmörkuð við hagkvæmt húsnæði og myndi höfuðstóll lána taka breytingum með markaðsvirði íbúðar. Lánið skyldi endurgreiðast við sölu íbúðar eða eftir 25 ár. Ragnar Þór segir hugmyndir um að stuðningur við fyrstu kaup nái líka til þeirra sem hafi lent utan húsnæðismarkaðar, t.d. vegna hrunsins.

„Við höfum verið að móta þessar tillögur út frá því hvernig þetta hefur gengið hér ytra. Slík úrræði hafa verið í boði í Skotlandi frá 2013 og gengið vel. Verði aðgerðir ríkisstjórnarinnar að veruleika yrði það bylting á íslenskum húsnæðismarkaði, svo ég taki vægt til orða.“

Lánin valdi ekki þenslu

Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að Skotar takmarki slík lán við nýjar íbúðir og hámarksfjárhæð til að eiginfjárlánin valdi ekki þenslu. „Úrræðin eru töluvert rýmri í Bretlandi og almennari. Á Íslandi gætu þessi úrræði spilað með tilgreindu séreigninni sem fólk getur safnað og notað sem eigið fé.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert