Íslenska ríkið hafnar öllum bótakröfum Guðjóns Skarphéðinssonar og krefst sýknu. Guðjón var árið 1980 fundinn sekur um að að hafa orðið Guðmundi og Geirfinni Einarssyni að bana sex árum áður.
Fréttablaðið greinir frá því að kröfu ríkisins um sýknu er lýst í greinargerð ríkislögmanns sem lögð var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Í greinargerðinni er þess einnig krafist að Guðjón verði dæmdur til að greiða ríkinu málskostnað.
Greint var frá því í júlí að Guðjón hefði stefnt ríkinu til greiðslu bóta. Stefnan var þingfest í júní og gerði Guðjón kröfu um rúma 1,3 milljarða í bætur fyrir ólöglega frelsisskerðingu í tengslum við Geirfinnsmálið.
Auk Guðjóns voru Kristján Viðar Viðarsson, Sævar Ciesielski, Albert Klahn, Tryggvi Rúnar Leifsson og Erla Bolladóttir sakfelld. Sexmenningarnir fengu mislanga dóma, en Guðjón var dæmdur í 10 ára fangelsi. Hann sat þó aðeins inni í fjögur og hálft ár, og fékk árið 1995 uppreist æru.
Tæpt ár er síðan Hæstiréttur sýknaði alla sakborninga að Erlu undanskilinni. Bað forsætisráðherra fimmmenningana afsökunar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og skipaði í kjölfarið sáttanefnd sem skyldi leitast við að semja um skaðabætur.
Guðjón var sviptur frelsi í 792 daga og gerir kröfu um 972.192.250 krónur ásamt dráttarvöxtum. Fjárhæðin er byggð á sömu reiknireglu og miðað var við í dómi Hæstaréttar um bætur til fjögurra manna sem sátu rúmu 100 daga í gæsluvarðhaldi vegna sama máls.
Ríkið hafnar því hins vegar að mál fjórmenninganna geti talist fordæmi um bætur Guðjóns. Ríkið vísar einnig til þess að dómkrafa Guðjón sé fyrnd.