„Þetta er framtíðin okkar. Við verðum öll að vakna og gera eitthvað í okkar málum,“ segir Hilmar Örn Agnarsson sem var einn af fjölmörgum sem tóku þátt í loftslagsmótmælum við Austurvöll í dag. Hann líkt og margir aðrir sem þar voru saman komnir kröfðust þess að gripið yrði strax til aðgerða. Hilmari eru umhverfismál hugleikin og þetta eru ekki fyrstu mótmælin sem hann tekur þátt í. Hann hefur fylgst náið með Gretu Thurnberg aðgerðasinna og einlægri baráttu hennar fyrir breyttum heimi.
Hann bendir á að allir geti byrjað á sjálfum sér til að mynda við að flokka sorp. „Þjóðverjar kunna þetta. Við eigum að geta þetta líka,“ segir hann um sorpmálin. Hann furðar sig á því að bæjaryfirvöld komi ekki betur til móts við íbúa og bjóði þann valkost að íbúar geti til að mynda flokkað lífrænt sorp í sértunnu.
Björg Þórhallsdóttir tekur í sama streng. Þetta sé lítið skref sem allir ættu að geta stigið. Þau segja ekki lengur tækt að loka augum og eyrum fyrir loftslagsvánni og þeim breytingum á veðurfari sem henni fylgja sem fari ekki framhjá neinum. Í þessu samhengi bendir hún á óvenjuhlýtt sumar sem hefur nýrunnið sitt skeið á enda. „Auðvitað var þetta notalegt en þetta er ekki eðlilegt,“ segir hún.