Baldur Arnarson
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir mögulegt að ljúka smíði Sundabrautar fyrir 2030. Lágbrú sé fýsilegasti kosturinn en mögulega verði hægt að áfangaskipta verkinu og hraða því.
Áætlað sé að lágbrúarleiðin kosti 60 milljarða og verkefnið í heild allt að 70 milljarða. Miðar hann þá við alla leiðina frá Kleppsvík að Kjalarnesi.
Sigurður Ingi segir hugmyndir um að bjóða allt verkið út frá hönnun til framkvæmda. Nú sé miðað við allt að 8 metra háar brýr yfir voginum, borið saman við 24 metra í fyrri tillögu. Gert sé ráð fyrir að fjármagna verkefnið með veggjöldum.
Sigurður Ingi segi að þótt brúarsmíðin þrengi að skipafélögunum sé rétt að horfa áratugi fram í tímann. Sundahöfn verði sennilega ekki aðalskipahöfnin eftir nokkra áratugi.
Næsta fimmtudag verður kynnt samgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið til næstu 15 ára.
Að sögn Rósu Guðbjartsdóttur, formanns Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SSH, felur áætlunin í sér framkvæmdir við stofnbrautir, almenningssamgöngur, borgarlínuna, hjóla- og göngustíga og umferðarstýringu. Þær hefjist þegar á næsta ári og muni bæta flæði umferðar innan fárra ára.
Rætt hefur verið um að uppbyggingin geti kostað 120 milljarða og borgarlínan þar af 50 milljarða.
Áformin um Sundabraut sæta tíðindum en borgin hefur samkvæmt heimildum blaðsins ekki gert ráð fyrir Sundabraut. Samkvæmt áætlun starfshóps kosta jarðgöng 74 milljarða en lágbrúin, eða lágbrýrnar, 60 milljarða. Þannig hafa verið unnin drög að tveimur lágbrúm sem tengjast landfyllingu á miðri leið. Síðan taka við göng í gegnum Gufuneshöfða. Lágbrúin og áðurnefnd áætlun kosta alls 180 milljarða, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.