„Þessi ást ykkar á risastórum bílum ...“

„Göngustígar og gangbrautir eru það mikilvægasta og svo er þetta …
„Göngustígar og gangbrautir eru það mikilvægasta og svo er þetta spurning um að ná jafnvægi í plássi og forgangi fyrir gangandi vegfarendur,“ segir Walker. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stofn­andi sam­tak­anna Walk21 seg­ir hátt hlut­fall þeirra sem ferðast á milli staða með einka­bíl í Reykja­vík ekki koma á óvart miðað við það hvernig borg­in er hönnuð. Þá seg­ir hann mik­il­vægt að Íslend­ing­ar íhugi hvort áhrif um­ferðar­menn­ing­ar á heilsu, lofts­lag og ham­ingju þjóðar­inn­ar séu ásætt­an­leg og að þeir finni jafn­vægi á milli mis­mun­andi sam­göngu­máta.

Jim Wal­ker kom hingað til lands fyr­ir rúm­um þrem­ur ára­tug­um og gekk um landið. Á ferðalag­inu breytt­ist heims­mynd hans og í kjöl­farið stofnaði hann alþjóðlegu sam­tök­in Walk21 sem hafa það að mark­miði að bæta aðgengi gang­andi veg­far­enda í borg­um um all­an heim.

„Ísland er mitt and­lega heim­ili“

„Ferðalagið breytti lífi mínu. Ísland er mitt and­lega heim­ili. Ég var ný­skriðinn yfir tví­tugt og hafði lagt stund á um­hverf­is­fræði við há­skóla en áttaði mig á því að öll sú nátt­úra sem við lærðum um var und­ir áhrif­um frá mann­fólk­inu sem hafði ákveðið hverju ætti að halda og hverju ætti að henda. Það var ekki nátt­úru­legt og þess vegna vildi ég kom­ast til Íslands.

Það var nokkuð erfitt á þeim tíma, en ég kom með fyrstu ferju vors­ins til Seyðis­fjarðar og fór með þeirri síðustu heim um haustið. Á þrem­ur mánuðum gekk ég um Ísland, þá voru hér ekki marg­ir ferðamenn og raun­ar ekki svo mikið af bíl­um. Ég las Bibl­í­una á göng­unni svo þetta var eins kon­ar píla­gríms­ferð mín í al­vöru hrárri nátt­úru. Þetta gerði mér ljóst hvað skipt­ir mestu máli,“ út­skýr­ir Wal­ker. Hann starfaði við land­vörslu í heima­land­inu, Bretlandi, um tíma eft­ir Íslands­ferðina, en ákvað síðan að ein­blína á að fólk fengi líka notið úti­vist­ar og nátt­úru inn­an borg­ar- og bæj­ar­marka.

Fjöldi bíla orðinn virki­lega krefj­andi

Í þetta sinn er Wal­ker stadd­ur hér á landi í til­efni evr­ópskr­ar sam­göngu­viku. Þegar blaðakona sló á þráðinn til hans á ell­efta tím­an­um á fimmtu­dags­morgni kvaðst hann hafa verið á göngu um borg­ina, vel að merkja í grenj­andi rign­ingu, í þrjár klukku­stund­ir. „Þetta er besta leiðin til að kynn­ast borg­inni,“ seg­ir Wal­ker og þver­tek­ur fyr­ir að veðrið sé ástæða þess að hann mæti fáu fólki á göngu sinni.

„Fólk hér er þraut­seigt og und­ir veðrið búið. Það er ekki það að fólk vilji ekki nota fjöl­breytt­ari ferðamáta held­ur er þetta spurn­ing um menn­ingu. Ég kemst ekki hjá því að hugsa um þær breyt­ing­ar sem orðið hafa á borg­inni síðan ég var hér fyr­ir þrem­ur ára­tug­um og hver þró­un­in í þess­um mál­um hef­ur verið. Það er margt hér sem virk­ar vel, en fjöldi bíla er orðinn virki­lega krefj­andi. Það er áskor­un að finna jafn­vægið á milli bíla, bæði um­ferðar­inn­ar sjálfr­ar og bíla­stæða, og gang­andi veg­far­enda og það er vanda­mál sem mun bara fara vax­andi ef þess­ari þróun verður ekki snúið við.

Jim Walker ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Sesselju Traustadóttur, framkvæmdastýru …
Jim Wal­ker ásamt Katrínu Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra og Sesselju Trausta­dótt­ur, fram­kvæmda­stýru Hjóla­færni á Íslandi. Ljós­mynd/​Aðsend

Það er eins og ráð sé gert fyr­ir að all­ar ferðir séu farn­ar ak­andi,“ seg­ir Wal­ker og nefn­ir þar sem dæmi fjölda bíla­stæða við sund­laug­ar, sem þó séu nán­ast í hverju hverfi. Hann tel­ur að hægt sé að byrja á að hvetja fólk til að fara þess­ar styttri ferðir, und­ir kíló­metra eða tveim­ur, gang­andi eða hjólandi.

„Göngu­stíg­ar og gang­braut­ir eru það mik­il­væg­asta og svo er þetta spurn­ing um að ná jafn­vægi í plássi og for­gangi fyr­ir gang­andi veg­far­end­ur,“ seg­ir Wal­ker. Þá eru börn og eldri borg­ar­ar hon­um sér­stak­lega hug­leik­in og nefn­ir hann spít­ala sem dæmi. Á hönn­un­ar­mynd­um af nýj­um Land­spít­ala sé mikið af gang­andi og hjólandi fólki en þegar litið sé til raun­veru­leik­ans séu þar í kring ekk­ert nema bíl­ar. Þá þykir hon­um það skjóta skökku við að fyr­ir utan Barna­spítal­ann sé skilti þar sem bent er á að bannað sé að reykja, en svo séu átta ak­rein­ar fyr­ir bílaum­ferð í næsta ná­grenni.

Set­ur Ísland á stall með Nýja-Sjálandi

„En hér er margt sem virk­ar vel og hér er metnaður meðal stjórn­mála­fólks til að bæta þetta jafn­vægi á milli ak­andi um­ferðar og annarra ferðamáta. Ég set Ísland á stall með Nýja-Sjálandi. Þetta eru þau tvö lönd þar sem mest von er á að breytt verði rétt. 

Jim Walker ásamt fræknu föruneyti á leið á ráðstefnuna Hjólum …
Jim Wal­ker ásamt fræknu föru­neyti á leið á ráðstefn­una Hjól­um til framtíðar 2019. Ljós­mynd/​Aðsend

Ég held að þetta verði allt í lagi. En þessi ást ykk­ar á risa­stór­um bíl­um, ef hún eykst og þeim fjölg­ar, þá verður virki­leg áskor­un að finna pláss fyr­ir þá alla. Það sem ger­ist er að þið munuð enda með Costco og alla þessa stór­markaði í útjaðri borg­ar­inn­ar sem munu soga lífið úr miðborg­inni. All­ir keyra í búðina og heim og eini staður­inn sem fólk hitt­ist er á gangi 23.“

Wal­ker seg­ist bjart­sýnn á að Íslend­ing­ar finni þetta jafn­vægi. Stund­um þurfi þó til per­sónu­leg áföll ráðamanna til að hrinda af stað breyt­ing­um og nefn­ir hann þar dæmi um bæj­ar­stjóra í Iowa í Banda­ríkj­un­um sem fékk hjarta­áfall. „Lækn­ir­inn sagði hon­um að hann yrði að breyta venj­um sín­um og hreyfa sig meira. Hann keypti sér íþróttagalla og ætlaði út að ganga næsta morg­un en komst að því að það væru eng­ar gang­stétt­ir í borg­inni. Hann fór í borg­ar­ráð og fékk þau svör að eng­ar gang­stétt­ir hefðu verið gerðar því í sam­fé­lag­inu sem þau byggju í færu all­ir ferða sinna ak­andi.

Veðrið sé ekki notað sem af­sök­un

Nú er hann þekkt­ur fyr­ir að setja alla borg­ina í megr­un og all­ir fóru niður um buxna­stærð því hann lét byggja göngu- og hjóla­stíga,“ seg­ir Wal­ker. Á Íslandi finni hann þó þegar að vilji sé til þess að gera bet­ur í þess­um mál­um.

„Ég held að hér á Íslandi séuð þið þekkt fyr­ir að vilja og gera hið rétta gangvart nátt­úr­unni. Þeir sem hér eru við völd hafa al­vöru­vilja til að skapa hreinna, ör­ugg­ara og betra land og ég held að þau séu nógu sam­stiga til að koma því í gagnið. En það þarf að tryggja að við not­um ekki veðrið sem af­sök­un. Þetta snýst um svo miklu meira en það. Þegar ég sé fólk úti á Íslandi er ekki séns að það láti veðrið hafa áhrif á sig. Það aðlag­ast.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert