Fylgi Sjálfstæðisflokksins er í sögulegum lægðum samkvæmt skoðanakönnunum, en ný könnun fyrirtækisins MMR sýnir flokkinn með 18,3% sem er minnsta fylgi sem hann hefur mælst með. Þannig mælist fylgið nú mun minna en eftir falls viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 en í kosningunum þá um vorið hlaut flokkurinn 23,7%.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir í samtali við mbl.is að rétt sé að fara varlega í að draga of miklar ályktanir um fylgisþróun stjórnmálaflokkanna þegar breytingar séu ekki meiri en raun beri vitni á milli kannanna. Hins vegar sé annað mál þegar greina megi ákveðna þróun í fylgi einstakra flokka.
Þannig sé nokkuð ljóst að fylgi Sjálfstæðisflokksins hafi verið að leita niður á við í síðustu skoðanakönnunum á sama tíma og ekki sé endilega ljóst hvert það fylgi sem flokkurinn hafi tapað sé að leita. Þá sé að sama skapi óvíst að kannanir nú segi eitthvað um það hvernig fylgi hans gæti orðið í næstu þingkosningum hvenær sem þær verði.
Það eigi einnig eftir að koma betur í ljós, að sögn Grétars, hvort um varanlega breytingu sé að ræða þegar fylgi Sjálfstæðisflokksins er annars vegar eða einungis tímabundna.