„Það sem ég er mest undrandi yfir er að það virðist enginn áhugi vera á þessum bílum hjá Reykjavíkurborg og maður mætir bara vegg þar. Þar eru allir á fundum og svo þegar á að hringja í mig til baka þá er það aldrei gert.“
Þetta segir Hilmar Ólafsson, búsettur í Bryggjuhverfinu í Reykjavík, í samtali við mbl.is um samskipti sín við Reykjavíkurborg vegna tveggja bíla sem hafa staðið í bílakjallaranum hjá honum í hátt á annað ár óhreyfðir.
Fyrst um sinn var Hilmar lítið að velta bílunum fyrir sér en ákvað svo að kanna hver væri eigandi bílanna þar sem þeir höfðu staðið lengi óhreyfðir. Í ljós kom að eigandi bílanna er Reykjavíkurborg.
Þegar Hilmar hafði samband við Reykjavíkurborg vegna bílanna lenti hann á vegg og svo virðist sem forsvarsmenn borgarinnar hafi engan áhuga á því að vitja þeirra. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni fyrir skemmstu.
Í samtali við mbl.is segir Hilmar að hann hafi tvisvar reynt að hringja og ná sambandi við einhvern hjá Reykjavíkurborg varðandi bílana en ekki fengið nein svör. Hann hafi hins vegar fengið nafn og tölvupóstfang hjá manni sem átti að hafa þessi mál á sinni könnu og sendi honum tölvupóst fyrir viku en hefur ekki enn fengið svar.
„Ég tek alltaf eftir bílunum í bílageymslunni á hverjum morgni og hélt fyrst að þeim hefði verið stolið eða það væri eitthvert gamalmenni sem ætti þá og væri ekki að hreyfa þá mikið. Svo ákvað ég að fletta upp bílnúmerunum og sé þá að Reykjavíkurborg á þessa bíla,“ útskýrir Hilmar og bætir við:
„Það vakti undrun mína og ég hringdi tvisvar í Reykjavíkurborg en fékk engin svör. Það virðist enginn áhugi vera á þessum bílum þar.“
Hilmari finnst það „vægast sagt sérstakt“ að það geti enginn svarað honum hjá borginni en bætir því við að það geti verið eðlileg skýring á þessu þótt hún sé ekki enn komin fram.
„Það er voðalega gott að vita í hvað okkar gjöld [Reykvíkinga] fara, bíla sem standa óhreyfðir í bílageymslum hér og þar,“ segir hann kíminn að lokum.