Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, skipar ekki í embætti skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hún óskaði eftir því við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að hún fæli öðrum að skipa í umrætt embætti sem var auglýst til umsóknar nýverið.
Ástæðan er sú að núverandi skólameistari, Ágústa Elín Ingþórsdóttir, hefur höfðað mál á hendur íslenska ríkinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna þeirrar ákvörðunar mennta- og menningarmálaráðherra að auglýsa embættið laust til umsóknar frá og með 1. janúar 2020. Ríkislögmaður fer með málsvörn ríkisins og mun ráðherra ekki tjá sig um málið á meðan það er í vinnslu. Þetta kemur fram svörum ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.
Skipað er í embættið í fimm ár í senn. Samningur Ágústu rennur út um næstu áramót, 1. janúar 2020.
Í frétt Rúv um málið er greint frá nöfnum allra fjögurra umsækjenda sem eru eftirfarandi: Ágústa Elín Ingþórsdóttir skólameistari, Steinunn Inga Óttarsdóttir, sérfræðingur hjá Félagi framhaldsskólakennara, Steingrímur Benediktsson framhaldsskólakennari og Þorbjörg Ragnarsdóttir aðstoðarskólameistari.
Þess má geta að fyrir um fjórum árum, í október árið 2015, fundaði þáverandi menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, með skólameistaranum Ágústu til að ræða um vandamál innan skólans.
Þar kemur meðal annars fram að kennarar við skólann væru óánægðir með starfshætti og stjórnun Ágústu.