Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat opnun á leiðtogafundi um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í New York í Bandaríkjunum í gær en þetta er fyrsta skipti sem slíkur leiðtogafundur er haldinn frá því markmiðin voru samþykkt árið 2015. Enn fremur stýrði forsætisráðherra pallborðsumræðum í dag ásamt Carlos Alvarado Quesada, forseta Kosta Ríka, um heimsmarkmiðin að því er segir í fréttatilkynningu.
Sömuleiðis fundaði Katrín með Jacindu Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. „Forsætisráðherrarnir ræddu loftslagsmál og mögulegt samstarf ríkjanna á því sviði, samstarf þjóðanna um velsældarhagkerfi og Heimsþing jarðhitans sem haldið verður á Íslandi á næsta ári. Þá ræddu ráðherrarnir um jafnréttismál og aðgerðir gegn heimilisofbeldi.“
Þá tók forsætisráðherra einnig þátt í kynningu á áformum nokkurra ríkja um samning um loftslagsbreytingar, viðskipti og sjálfbæra þróun að frumkvæði nýsjálenskra stjórnvalda í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Auk Ardern voru forsætisráðherrar Noregs og Fiji viðstaddir fundinn auk aðstoðar-utanríkisviðskiptaráðherra Kosta Ríka.
„Ríkin ætla að vinna saman að samningi um afnám tolla á umhverfisvænar vörur, afnám niðurgreiðslna á jarðefnaeldsneyti og umhverfismerkingar. Með samningnum hyggjast ríkin sýna í verki vilja sinn til að vinna gegn loftslagsbreytingum af völdum alþjóðaviðskipta. Hingað til hefur ekki náðst samstaða um slíkt á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar en gert er ráð fyrir að samningaviðræðurnar hefjist snemma árs 2020.“
Forsætisráðherra var enn fremur viðstödd opnun almennrar umræðu í allsherjarþinginu í gær, sat hádegisverð í boði António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og sótti móttöku í boði forseta Bandaríkjanna í tengslum við allsherjarþingið.