Tugir grunaðir um aðild að peningaþvætti

mbl.is/Ófeigur

Tugir eru grunaðir um aðild að hundraða milljóna króna peningaþvætti sem er til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og situr þrennt í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Talið er að peningaþvættið hafi staðið yfir í á þriðja ár.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins en þar sagði að héraðssaksóknari hefði ráðist í samræmdar aðgerðir, handtökur og húsleitir, víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku með þátttöku sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Fólkið sem um ræðir er íslenskir ríkisborgarar, konur og karlar, á þrítugsaldri. Fólkið fór, samkvæmt heimildum Ríkisútvarpsins, ítrekað í banka, í sumum tilfellum í tugi skipta, og skipti íslenskum krónum í evrur, alltaf um einni milljón í senn.

Fyrir hverja slíka ferð fékk fólkið í kringum tíu þúsund krónur að launum. Herma heimildir Ríkisútvarpsins ennfremur að fylgst hafi verið með fólkinu í nokkurn tíma áður en látið var til skarar skríða og að hald hafi verið lagt á rúmlega tuttugu milljónir króna í reiðufé, bæði í krónum og evrum. Rannsókn málsins er sögð á viðkvæmu stigi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert