„Sagan um öryrkja er sagan um konur“

Kolbeinn H. Stefánsson, doktor í félagsfræði, vann skýrsluna fyrir Öryrkjabandalagið. …
Kolbeinn H. Stefánsson, doktor í félagsfræði, vann skýrsluna fyrir Öryrkjabandalagið. Skýrslan var kynnt í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir það verulegt áhyggjuefni að konur yfir fimmtugu leggi mest til fjölgunar örorkulífeyrisþega. Öryrkjabandalagið gaf út skýrslu í dag sem leiðir í ljós að stærstan hluta fjölgunar ör­orku­líf­eyr­isþega hérlendis má rekja til kvenna 50 ára og eldri og eru kon­ur á hverj­um tíma 60% af ör­orku­líf­eyr­isþegum.

Þuríður segir mikilvægt að skoða hvað þessu veldur í menningu og samfélagi Íslendinga. 

Kolbeinn H. Stefánsson félagsfræðingur vann skýrsluna. Hann segir margvíslegar ástæður liggja að baki því að konur leggi svo mikið til fjölgunarinnar. „Það er ólíkt lífshlaup karla og kvenna sem leiðir að þessari niðurstöðu.“

Kolbeinn segir að þar spili inn í að konur séu líklegri til að vinna umönnunarstörf, verða fyrir kynbundnu ofbeldi, bera þungann af barnauppeldi og heimilishaldi og líklegri til að vera einstæð foreldri en karlmenn. „Þessar ástæður hafa ekki fengið neitt sérstaklega stórt pláss í umræðunni,“ segir Kolbeinn. 

Segir eitthvað í ólagi í geðheilbrigðismálum

Mun­ur­inn á milli karla og kvenna eykst með aldri. Kolbeinn segir að það bend­i til þess að stefnu­mót­un þurfi til þess að taka á því sem er ólíkt í lífs­hlaupi karla og kvenna. „Örorka er kynjapólitískt vandamál. Sagan um öryrkja er sagan um konur.“

Í skýrslunni kemur sömuleiðis fram að geðrask­an­ir eru fjöl­menn­asti flokk­ur grein­inga til grund­vall­ar 75% ör­orku- og end­ur­hæf­ing­armats. „Það er eitthvað ekki í lagi í geðheilbrigðismálunum,“ segir Kolbeinn sem bendir á að það sýni sig á fleiri sviðum en einungis í samhengi við öryrkja, til að mynda hvað varðar ungt fólk. 

Gestir voru áhugasamir um efnið og eftir kynninguna spunnust upp …
Gestir voru áhugasamir um efnið og eftir kynninguna spunnust upp miklar umræður um efni skýrslunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Erfitt að vinna með fólk í Excel“

Sem lausnir við vandanum nefnir Kolbeinn til dæmis að það verði að styrkja geðhelbrigðismál í landinu, breytingar verði að verða á kynbundinni verkskiptingu og tækla þurfi kynbundið ofbeldi. 

„Við þurfum að fara að tala um öryrkja sem fólk með raunverulega sögu og raunveruleg vandamál,“ segir Kolbeinn. 

Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður Öryrkjabandalagsins, tekur undir það. „Það er ofboðslega erfitt að vinna með fólk í Excel.“ Hann bætir því við að þjóðin væri á réttri braut en hægt væri að gera talsvert betur. 

Frá vinstri: Þuríður Harpa Sigurðardóttir, Kolbeinn H. Stefánsson og Halldór …
Frá vinstri: Þuríður Harpa Sigurðardóttir, Kolbeinn H. Stefánsson og Halldór Sævar Guðbergsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt skýrslunni hefur hægt á fjölg­un ör­orku­líf­eyr­isþega und­an­far­in tvö ár þrátt fyr­ir að þeim hafi fjölgað um­tals­vert frá alda­mót­um sem og á milli 2008 og 2019 þegar þeim fjölgaði frá því að vera 7% af mann­fjölda á vinnualdri í 7,8%. Frá janúar 2017 hefur fjöldi örorkulífeyrisþega svo gott sem staðið í stað. 

Kolbeinn segir þessa miklu fjölgun helst skýrast af því að kerfið í kringum örorkulífeyrisþega varð á þessum tíma betra og fleiri féllu inn í það. Um skýringar á því hvers vegna hægt hefur á fækkuninni segir Kolbeinn erfitt að segja til um það. Hagsveifla með aukinni eftirspurn eftir vinnuafli sé möguleg skýring.

„Það er þó þetta fólk sem fyrst missir vinnuna þegar þrengir að,“ segir Kolbeinn.

Konur þurfi að vera í kastljósinu

Hann telur umræðuna lengi hafa beinst að fjölgun ungra karlmanna meðal örorkulífeyrisþega. Sú fjölgun sé samt sem áður mjög takmörkuð og fjölgun kvenna yfir fimmtugu þurfi fremur að vera í brennidepli. 

„Það er fjölgun í hópi ungra karlmanna en sú fjölgun er ekki mikil í hausum talin.“

Kolbeinn segir að meiri fjármunir þurfi að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir. „Ég er hrifinn af því að henda peningum í vandamál. Það segja margir að það skili engu en málið er að það skiptir mestu máli hversu vel maður hittir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert