„Ég get staðfest í einu og öllu að allt sem sagt er um brottrekstur minn frá Eflingu í grein Þráins Hallgrímssonar í Morgunblaðinu 25. september sl. er satt og rétt með farið.“
Þetta segir í yfirlýsingu frá Önnu Lísu Terrazas, fyrrverandi þjónustufulltrúa hjá stéttarfélaginu Eflingu, vegna umræðu um grein Þráins Hallgrímssonar, fyrrverandi skrifstofustjóra félagsins, í Morgunblaðinu þar sem hann gagnrýndi núverandi forystu þess harðlega fyrir framgöngu hennar gagnvart ýmsum starfsmönnum þess. Fólk sem ekki hafi verið forystunni að skapi hafi verið hrakið úr störfum með einum eða öðrum hætti.
Þráinn greindi meðal annars frá því að í síðasta brottrekstrinum hefði starfsmanni verið sagt upp fyrirvaralaust á þeim forsendum að um skipulagsbreytingar væri að ræða. Lögmaður Alþýðusambands Íslands hefði verið á staðnum og hefði reynt að sannfæra starfsmanninn um að framganga Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Eflingar, væri í lagi þegar hann hefði neitað að staðfesta móttöku uppsagnarbréfs.
„Enginn varði hagsmuni starfsmannsins á fundinum. Enginn var henni til aðstoðar. Lauk þessu þannig að starfsmanninum var fylgt úr húsi fyrir framan aðra starfsmenn og tekinn af henni lykill og bílakort. Starfsmanninum var síðan meinað að mæta á fyrrverandi vinnustað sinn á skrifstofutíma til að sækja persónulega muni sína,“ segir í grein Þráins. Viðar hefur gagnrýnt þessi skrif Þráins og sagt hann ekkert vita um þessi mál.
Fram kemur í yfirlýsingu Önnu Lísu að frásögnin í grein Þráins sé hennar. „Um er að ræða mína eigin frásögn af málinu. Það var enginn sem varði hagsmuni mína á fundinum. Mér var sagt upp fyrirvaralaust og lögmaður ASÍ tók þátt í því að reyna að sannfæra mig um að þessi aðferð við brottrekstur minn væri í lagi. Skipulagsbreytingar eru ekki ástæða uppsagnarinnar enda þarf að vinna öll mín verkefni á skrifstofu eftir að ég hef verið rekin.“