Ummælin voru oftúlkuð

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. mbl.is/​Hari

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir ummæli sín um spillingu í lögreglunni hafa verið oftúlkuð í umræðunni undanfarið.

„Umfjöllun um spillingu í viðtali í Morgunblaðinu fyrir skömmu byggir meðal annars á því sem fram kemur í skýrslu GRECO um varnir gegn spillingu hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds og löggæslu á Íslandi. Ég er að vísa til hennar og þeirra ábendinga og viðvarana sem þar koma fram, en einnig til einstakra mála sem komið hafa upp á undanförnum árum,“ segir Haraldur og víkur að viðbrögðunum.

„Ættu að lesa þetta viðtal“

„En orð mín um spillingu hafa fengið óvænt flug og verið útfærð í þá veru að ég hafi sagt að það sé grasserandi almenn spilling innan lögreglunnar. Það hef ég aldrei sagt, hvorki í þessu viðtali né annars staðar. Þannig að þeir sem halda þessu fram ættu að lesa þetta viðtal.“

GRECO er ríkjahópur gegn spillingu innan Evrópuráðsins. Spurður hvort hann telji að ummælin um spillingu í viðtalinu, sem voru um 30 orð af 3.500 orðum, hafi vísvitandi verið oftúlkuð kveðst Haraldur ekki geta dæmt um það.

„Ég er aðeins að segja að það er búið að leggja of mikla alhæfingu í þessi orð mín í viðtalinu, þar sem ég var fyrst og fremst að vísa í varnaðarorðin í GRECO-skýrslunni og þessi tilvik sem hafa komið upp og þar eru reifuð,“ segir Haraldur.

Fjallað var um GRECO-skýrsluna og helstu niðurstöður hennar í Morgunblaðinu í gær. Þar voru rifjuð upp dæmi um að lögreglumenn á Íslandi hefðu gerst brotlegir í starfi. Ýmsar kerfislægar ástæður gætu hindrað að greint væri frá vandamálum innan lögreglunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert