Lögreglan á Suðurnesjum fékk tilkynningu frá vegfaranda á dögunum um að álft með þrjá unga væri að spássera á Reykjanesbraut og stefndi til sjávar.
Var athæfi álftarinnar talið geta valdið slysum bæði á mannverum og dýrum og ákvað lögregla því að stöðva umferð á meðan fuglarnir trítluðu yfir brautina og gekk allt að óskum, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Þar segir einnig að tilkynnt hafi verið um tvær landnámshænur sem ekki höfðu skilað sér heim á réttum tíma.
„Þar sem engin tilkynning hafði borist til lögreglu um hænur í óskilum var lítið hægt að aðhafast í málinu annað en að sjá hvort flökkufuglarnir skiluðu sér heim sem þeir hafa vonandi gert,“ segir í tilkynningu.