„Gjörbreytir stöðu hinna sýknuðu“

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarp­héðins­son­ar, eins þeirra sem sýknaði voru …
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarp­héðins­son­ar, eins þeirra sem sýknaði voru af ákæru í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu. Hann segir jákvætt að rétt­ur hinna sýknuðu til að láta reyna á lögvar­inn rétt sinn að öðru leyti fyr­ir dómi standi óhaggaður.

„Mín fyrstu viðbrögð eru að frumvarpið sé jákvætt fyrir hina sýknuðu,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarp­héðins­son­ar, eins þeirra sem sýknaði voru af ákæru í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu, um frum­varp Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra um heim­ild til að greiða bæt­ur vegna sýknu­dóms Hæsta­rétt­ar í málinu.

Frumvarpinu var dreift á Alþingi í dag og á það að tryggja að sér­stök laga­heim­ild standi að baki greiðslu bóta til hinna sýknuðu og aðstand­end­a þeirra. 

Ragnar segir jákvætt við frumvarpið að  það feli í sér að ríkið muni ekki halda uppi þeirri vörn að rétt sé að sýkna ríkið af bótakröfunum. „Þannig að sjónarmið um að kröfurnar séu fyrndar og annað slíkt eiga ekki lengur við,“ segir hann.

Þess í stað sé vilji ríkisins nú afdráttarlaus og með því sé hægt að spara mikið fé og tíma í þeim dómsmálum sem þegar hafa risið eða kunna að rísa.

Bæturnar töluvert mikið hærri

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu seg­ir að í þeim viðræðum sem sett­ur rík­is­lögmaður hafi átt við aðila máls­ins hafi 700–800 millj­óna króna heild­ar­fjár­hæð verið rædd. Sú fjár­hæð kunni þó að taka ein­hverj­um breyt­ing­um eft­ir fram­gangi samn­ingaviðræðna. 

Spurður hvort sú fjárhæð rými við bótakröfur skjólstæðings Ragnars segir hann svo ekki vera. „Í greinagerð með frumvarpinu er vísað til þess að meðalbætur nýlega hafi verið  150-200.000 kr.  fyrir hvern dag. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þær séu rúmlega 200.000 á dag og ef það er fordæmið sem ætti að miða við þá reiknast auðvitað bæturnar töluvert miklu hærri.“

Þá segist Ragnar ekki sjá betur en að sá  ágalli sé á frumvarpinu eða greinagerðinni að þar sé ekki gerð grein fyrir fjárhagslegu tjóni hinna sýknuðu. „Sá sem situr í fangelsi árum saman vinnur sér ekki inn tekjur og það eru töluverðar fjárhæðir, hvernig sem þær verða reiknaðar,“ segir hann og kveður þær eiga einnig að vera hluta af útreikningunum.

Í frétt frá forsætisráðuneytinu segir að frum­varpið tryggi lagaheimild bótagreiðslanna „með sann­girni og jafn­ræði gagn­vart hinum sýknuðu og aðstand­end­um þeirra að leiðarljósi.“ Ragnar segir þetta vera eftirhreytur þess að frumvarpið átti lengi vel að heita frumvarp um sanngirnisbætur, en það heiti er ekki lengur notað. „Það er svo alltaf spurning hvaða bætur séu sanngjarnar fyrir það sem þarna gerðist,“ segir hann.

„Ég held líka að dómstólar geti ekki bara notað sanngirnishugtakið. Ég held að þeir verði að nota þau fordæmi sem við er að styðjast og það verður liður til hærri fjárhæða en þarna eru nefndar.“

Jákvætt að bæturnar hindri ekki frekari dómsmál

Tekið er fram í frumvarpinu að bæturnar séu skattfrjálsar og segir Ragnar ríkið gera töluvert mikið úr því, þó að miskabætur séu og hafi lengi verið skattfrjálsar á Íslandi. Hagstætt sé þó að tekið er fram að bæturnar muni ekki skerða bætur úr opinberum sjóðum eins og almannatryggingum.

Þá sé jákvætt að rétt­ur hinna sýknuðu til að láta reyna á lögvar­inn rétt sinn að öðru leyti fyr­ir dómi standi óhaggaður. „Þetta er breyting frá því sem áður var,“ segir Ragnar. „Í samningaviðleitninni var ætíð gert ráð fyrir því að ef það næðist samkomulag um einhverja bótafjárhæð þá yrðu hinir sýknuðu að falla frá öllum öðrum kröfum og lýsa því yfir að þetta væri fullnaðarkrafa bótagreiðslu þeirra. Þetta gjörbreytir stöðu hinna sýknuðu,“ segir hann. Fáist frumvarpið samþykkt geti þeir tekið við greiðslunni án þess að setja fyrirvara og haldið síðan áfram í þeim dómsmálum sem  þeir hafa annaðhvort þegar höfðað, eða hafa hugsað sér að höfða.

Þær breytingar yrðu þá að kröfugerðinni að hún myndi hljóma upp á fjárhæð að frádreginni þeirri greiðslu sem ríkið hefði þegar innt af hendi.

Ragnar segist hafa sent frumvarpið til Guðjóns og þeir muni svo ræða saman á morgun. „Við þurfum fyrst að sjá hvert framhaldið verður af hálfu ríkisins. Það var búið að slíta viðræðum við mig fyrir hönd Guðjóns fyrir löngu  og nú kemur í ljós hvort að þær verði teknar upp aftur, sem ég geri fastlega ráð fyrir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert