Kappsmál að styrkja stoðirnar tvær

Björn Bjarnason er formaður stýrihópsins.
Björn Bjarnason er formaður stýrihópsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

EES/EFTA-ríkjunum á að vera kappsmál að styrkja tveggja stoða kerfið og standa vörð um trúverðugleika stofnana þess. Þetta er á meðal þess sem starfshópur um EES-samstarfið leggur til í niðurstöðuskýrslu sinni en hún var birt í morgun á vef Alþingis.

Í starfshópnum sátu þau Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, og lögfræðingarnir Kristrún Heimisdóttir og Bergþóra Halldórsdóttir, en hann var skipaður af Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra 30. ágúst 2018, eftir að beiðni um slíka skýrslugerð var borin fram af 13 þingmönnum á Alþingi. 

Björn segir í aðfararorðum skýrslunnar að í erindisbréfi hópsins hafi honum meðal annars verið falið að taka saman yfirlit yfir og leggja mat á þann ávinning sem Ísland hefur haft af þátttökunni í EES-samstarfinu og þau helstu úrlausnarefni sem stjórnvöld hafa tekist á við í framkvæmd EES-samningsins. Þá hafi hópurinn átt að leggja mat á lagarammann sem hefur verið innleiddur á Íslandi á þeim sviðum sem EES-samningurinn nær yfir, en viðskiptalegir, efnahagslegir, pólitískir og lýðræðislegir þættir greindir að auki.

Þá átti hópurinn að líta til þróunar í samskiptum EES/EFTA-ríkja og Evrópusambandsins, ESB, og leggja mat á þær breytingar sem verði vegna úrsagnar Breta úr ESB. Auk þess hafi hópurinn átt að líta til stöðu samskipta ESB og Svisslendinga.

Vafi veikir stöðu Íslendinga 

Björn tekur fram í aðfararorðum sínum að markmið hópsins hafi ekki verið að setjast í dómarasæti um kosti og galla EES-samstarfsins heldur draga fram staðreyndir svo að lesendur skýrslu hans að gerðu sjálfir upp hug sinn.

Í skýrslunni eru því ekki beinar niðurstöður um kosti og galla samstarfsins, heldur er sérstakur kafli hennar helgaður fimmtán punktum til úrbóta á því. Þar er meðal annars tekið fram að frá árinu 1992 hafi ekkert sambærilegt tækifæri gefist til jafn viðamikils viðskipta- og samstarfssamnings við ESB og felst í EES-aðildinni. „Enginn tvíhliða samningur kemur í stað EES-samningsins. Vafi um að stjórnarskrá Íslands heimili fulla aðild að EES-samstarfinu veikir stöðu Íslendinga gagnvart samstarfsríkjum, einkum Noregi og Liechtenstein,“ segir í fyrsta punkti. 

Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg. Skýrsla starfshóps um EES-samstarfið var birt í …
Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg. Skýrsla starfshóps um EES-samstarfið var birt í morgun. Kristinn Ingvarsson

Þá segir hópurinn að binda verði enda á stjórnlagaþrætur vegna EES-aðildarinnar, annaðhvort með því að viðurkenna að hún hafi áunnið sér stjórnlagasess eins og aðrar óskráðar stjórnlagareglur eða með því að skrá ákvæði um aðildina í stjórnarskrána. 

Þá segir hópurinn að viðurkenna beri í verki að EES-aðildin móti allt þjóðlífið, frekar en að hún sé skilgreind sem erlend ásælni. Segir í skýrslunni að samlögun (e. integration) sé  „óaðskiljanlegur þáttur frjáls alþjóðasamstarfs en fullvalda ríkjum er í sjálfsvald sett hve langt þau ganga á þeirri braut.“

Frumkvæðið verður að koma frá EFTA-ríkjunum

Þá segir hópurinn að íslenskum stjórnvöldum sé skapað svigrúm til sjálfstæðra ákvarðana og gæslu eigin hagsmuna á grundvelli samningsins. Sé vilji til að auka það svigrúm beri að „taka afdráttarlaust af skarið um í hverju slíkar breytingar eiga að felast og kynna þær sameiginlega af EES/EFTA-ríkjunum“, samkvæmt skýrslunni, en tekið er fram að Evrópusambandið hafi ekki frumkvæði að slíkum breytingum á EES-samningnum.

Þá segir að EES/EFTA-ríkjunum eigi að vera kappsmál að styrkja tveggja stoða kerfið og standa vörð um trúverðugleika stofnana þess, en kerfið þrífist ekki nema EFTA-stoðin sé öflug. Þá verði að tryggja að EFTA-dómstóllinn njóti áfram virðingar og til hans sé borið traust innan EES/EFTA-stoðarinnar og utan. Þá verði að bregðast við aukinni sérhæfingu í samstarfi við fagstofnanir ESB með því að efla ESA, Eftirlitsstofnun EFTA. 

Þá varar hópurinn við því að ef Íslendingar stæðu utan lagasamstarfsins á EES-vettvangi og ætluðu að starfa í krafti heimasmíðaðra reglna yrði „mikil hætta á einangrun, stöðnun og afturför í þjóðlífinu öllu“, einkum á sviði efnahags- og atvinnulífs og þeim sviðum þar sem tæknivæðing hefur haft hvað mest áhrif. 

Stjórnmálamenn láti EES-málefni sig meiru varða

Leggur hópurinn til að tekið verði af skarið um það hver beri ábyrgð á EES-málum innan stjórnkerfisins með forsetaúrskurði um skiptingu starfa milli ráðherra. Um leið þurfi að viðurkenna í stjórnkerfinu að stór hluti samstarfsins sé alfarið á sviði innanríkismála, og skilgreina þurfi hlutverk utanríkisráðuneytisins í samræmi við það. 

Þá þarf að leggja grunn að meiri festu í allri stjórn og meðferð EES-mála á heima­velli, og leggur hópurinn því til að komið verði á fót „stjórnstöð EES-mála innan stjórnsýslunnar með föstu starfsliði sem fylgist viðvarandi með öllu er varðar málaflokkinn á mótunar- og framkvæmdastigi.“

Þá verði stjórnmálamenn, ráðherrar og alþingismenn, að láta sig EES-málefni meiru varða, þar sem án þátttöku þeirra komist pólitísk sjónarmið Íslands ekki á fram­færi. Því beri Alþingi að rækta tengsl sín við ESB-þingið með því að halda úti tengslafull­trúa í Brussel.

 Skýrsla starfshóps um EES-samstarfið í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert