Niðursetningum fjölgaði í harðæri

Sigríður Hjördís segir vafalítið að hún hefði verið ómagi ef …
Sigríður Hjördís segir vafalítið að hún hefði verið ómagi ef hún hefði fæðst á 18. öld, því hún er sjónlítil. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Að verða niðursetningur var eitthvað sem fólk forðaðist af öllum mætti, því þá var einstaklingurinn upp á sveitunga sína kominn með framfærslu og meðferðin var ekki alltaf góð. Sigríður Hjördís Jörundsdóttir sagnfræðingur hefur rannsakað ómaga sem sagt er frá í manntalinu frá árinu 1703.

Í manntalinu frá 1703 kemur fram að niðursetningar voru rúmlega 15 prósent af heildarmannfölda íslensku þjóðarinnar, eða milli átta og níu þúsund einstaklingar. Þetta er óvenjumikill fjöldi, því hlutfall niðursetninga var aðeins tæp 5 prósent í manntali hundrað árum síðar, 1801. Þetta hefur því verið sérlega slæmt árið 1703, en skýringin liggur meðal annars í því að í rúman áratug fram að því voru mikil harðindi hér á landi og sum þau ár var hreinlega hungursneyð á einhverjum svæðum. Mannfellir mikill og fiskveiðar bregðast algerlega á Norðurlandi og Norðausturlandi,“ segir Sigríður Hjördís Jörundsdóttir doktorsnemi í sagnfræði sem ætlar nk. mánudag að halda erindi á Borgarbókasafninu í Spönginni um rannsókn sína á niðursetningum en hún beinir sjónum sínum að ómögum sem manntalið 1703 greinir frá.

„Í því manntali eru lýsingar á ástandinu á fólkinu í Þingeyjarsýslu, Múlasýslu og yfir í Skaftafellssýslu. Þar er sagt frá því að fólk gangi um klæðalítið og illa nært, það hafi ekki að neinu að hverfa. Í jarðabókinni er mikið af býlum sem fara í eyði á þessum tíma á þessum svæðum og afleiðingin er sú að margt fólk er sett á sveit. Þegar ástandið var hvað verst á þessum verstu svæðum, þá gafst fólk hreinlega upp og leitaði annað í von um eitthvað betra, en fékk lítið betra því ástandið var alls staðar slæmt. Vestfirðir virðast hafa sloppið að mestu leyti, nema víða í Norður-Ísafjarðarsýslu, þar var fiskleysi, en heimræði hverfur á mjög mörgum bæjum á þessum tíma, sem var mjög stór hluti í lífsviðurværi almennings á annesjum.“

Barnmargir þurfabændur

Mörgum detta í hug börn og gamalmenni þegar þeir heyra orðið niðursetningur, en meðal ómaga var líka fólk á besta aldri.
Ingveldur Þorsteinsdóttir vinnukona (1843-1914). Kom úr Eyvindarhólasókn 1870, vinnukona í …
Ingveldur Þorsteinsdóttir vinnukona (1843-1914). Kom úr Eyvindarhólasókn 1870, vinnukona í Suðurvík til æviloka. Niðursetningur í Suðurvík, Reynissókn, Skaft. 1910. Ljósmynd/Skógasafn

„Aldurssamsetningin er þannig að tiltölulega fáir eru í allra yngsta aldursflokknum, til fimm ára, því þau allra yngstu voru látin vera hjá foreldrum sínum eins lengi og hægt var. Eldri börnin frá fimm ára til fimmtán ára eru mörg sem og gamalmenni. Í manntalinu 1703 er líka ungt fólk milli tvítugs og þrítugs, sem virðist ekki fá vist þótt vinnufært sé, og engin úrræði önnur en vera ómagi sveitar sinnar. Það er tekið fram að sumir geti unnið en fái enga vinnu.“

Sigríður segir að í sumum hreppum sé ótrúlega margt skráð um heilsufar niðursetninga og hversu lengi þeir eigi rétt á að vera í viðkomandi hreppi.

„Niðursetningarnir virðast oftast hafa verið þeir sem eru á barnsaldri eða þeir sem eru veikir á einhvern hátt. Framfærslukerfið á þessum tíma var þannig að ómagar skiptust í einka- og sveitarómaga auk þurfabænda, sem fengu aðstoð í einhvern tíma. Þeir voru oft barnmargir og það var stundum leyst með því að láta bóndann fá styrk heim til sín svo hann gæti haft börnin hjá sér, eða að aðrir bændur tóku slík börn til sín í niðursetu.“

Flutt mikið veik og karlæg

Sveitarómagar voru ýmist niðursettir eða færðir á milli bæja, eða þeir færðu sig sjálfir á milli, en það átti helst við um vinnufæra ómaga.

Í hverjum hreppi var ákveðinn fjöldi lögbýlisbænda og þeim var skylt að hjálpast að við að sjá fyrir þeim einstaklingum sem gátu ekki séð fyrir sér sjálfir, eða höfðu engan innan sinnar fjölskyldu sem gat séð um þá. Ég fann dæmi um konu í Húnavatnssýslu, Katrínu Guðmundsdóttur, sem skráð er mikið veik og karlæg og dæmd á Engihlíðarhrepp, til 3 ára tiltölu, og sagt er frá því að hún hafi verið flutt með veikum hætti af þremur einstaklingum. Hún er greinilega mikið veik, rúmliggjandi, en samt er verið að flytja hana, sem hefur greinilega verið þó nokkur fyrirhöfn, og þeir þrír sem settir eru í það verk sinna ekki öðrum störfum á meðan.

Í jarðabókinni er sagt frá kostum og göllum lögbýlanna og þar er talað um að þessi flutningur á fólki milli bæja sé íþyngjandi fyrir viðkomandi bæ. Oft var það vegna þess að ár voru erfiðar yfirferðar, eða hraun eða annað sem gerði flutninga á fólki erfiða. Oft er talað um að mest veiku einstaklingarnir séu á við einn og hálfan eða tvo ómaga, til dæmis þeir sem eru mjög veikir á geði, fatlaðir eða langveikir og þurfa mikla umönnun. Þetta er samfélag þar sem ætlast er til að ætt eða fjölskylda sjái um sína, en stundum var enginn ættingi fyrir hendi, eða mögulega treysti fólk innan fjölskyldu sér ekki til að sjá um mikið veikt fólk.“

Ómagar voru lægst settir allra í samfélaginu, eini réttur þeirra var að fá málsverð og húsaskjól þar sem þeir voru settir niður. „Samfélagið var að berjast við að bjarga því sem bjargað varð. Í Evrópu eru víða á þessum tíma settar á laggirnar stofnanir fyrir einstaklinga sem geta ekki séð um sig sjálfir, en hér var ekkert slíkt um aldamótin 1700. Reyndar var vísir að holdsveikraspítölum í hverjum fjórðungi, en aðeins örfáir einstaklingar voru þar.“ 

Ég hefði sjálf verið ómagi

Sigríður segir að hún sjálf sé nánast sjónlaus og að hún hefði án efa verið ómagi á þessum tíma.

„Því það kemur oft fram í skráningu ómaga að þeir séu blindir eða sjónlitlir. Við getum því þakkað fyrir framfarir, gleraugu, blindraletur og fleira sem forðar okkur sjónlitlum frá því að vera bjargarlaus,“ segir Sigríður og tekur fram að rannsókn hennar á niðursetningum sé hluti af stærra verkefni, sem snýst um að skoða þær heimildir sem til eru frá fyrsta hluta átjándu aldar, manntalið og kvikfjártal frá 1703 sem og jarðabók.

„Þar rannsökum við undirstöður landbúnaðarsamfélagsins, fjölskyldur og heimilisbúskap á Íslandi í byrjun 18. aldar. Framtíðarsýn okkar sem stöndum að því verkefni er að gera þetta að síðu þar sem fólk getur flett upp einstökum bæjum og fengið upplýsingar um stöðuna. Slóðin er www.1703.hi.is.“

Ástandslýsing manntal 1703

„Þetta ofanskrifað búandi fólk nærir sig og sína á litlri [svo] mjólk, sölvum og smærum, og fiskkorni, þegar fiskast vetur og sumar, og er einum guði kunnugast, hvað það hefur liðið og þolað í nokkur umliðin ár af svengd fiskleysisins vegna og misbrests málnytjunnar [svo], hvað grasormurinn hefur helst orsakað í tvö ár, og eru nú allir þessir bændur auðmjúklega umbiðjandi, fyrst guð almáttugan og konunglegt yfirvald að veita sér ásjá í Jesú nafni. Ofan og framanskrifað fólkregistur í Reyniskálki hér í Mýrdal er rétt samanskrifað, karlmanna og kvenna, ungra og gamlra[svo], fjöldi og aldur, eftir því sem nú á sig komið er og næst hefur orðið komist um aldurinn. ... Alt þetta fólk mjög klæðlítið og sumt af því holdljett.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert