„[H]vað er til ráða til þess að hjálpa drengjum, svo færri heltist úr lestinni í framhaldsskóla, svo strákar læri jafnmikið og stelpur í grunnskóla og framhaldsskóla?“ er spurningin sem hagfræðingarnir Gísli Gylfason og Gylfi Zoega prófessor reyna að svara í nýjum vinnupappír sem birtur hefur verið á vef Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Um er að ræða grein sem byggist að miklu leyti á BS-ritgerð Gísla í hagfræði frá því í vor, en hún fjallaði um kynjamun í íslenska menntakerfinu. Gylfi var leiðbeinandi verksins.
Í greininni fara þeir Gísli og Gylfi yfir stöðu drengja og stúlkna í íslenska menntakerfinu, allt frá grunnskóla og upp í háskóla. Á meðal niðurstaðna þeirra er það að stúlkur standi sig betur í grunnskóla en drengir og munurinn aukist stöðugt frá fjórða til sjöunda til tíunda bekkjar. Þá sé munurinn mun meiri í íslensku en stærðfræði. Þá sé brottfall drengja mun hærra en stúlkna í framhaldsskólum og að mun hærra hlutfall stúlkna (86%) en drengja (62%) úr hverjum árgangi ljúki stúdentsprófi. Þá ljúki næstum tvær konur námi á háskólastigi, fyrir hvern karlmann sem það gerir.
Niðurstöðurnar gefa til kynna að stúlkur haldi því „einkunnaforskoti“ sem þær hafa á drengi í bóklegu námi í grunnskóla yfir á hærri menntastig. Bág staða drengja innan skólakerfisins getur að sögn Gísla og Gylfa haft slæm áhrif, á líðan drengjanna sjálfra, framtíðarmöguleika þeirra á atvinnumarkaði og þjóðfélagið í heild.
„Þegar von er úti um lífsgæði og tækifæri þá grípa margir karlar sem hætt hafa námi snemma á námsferlinum til þess að kjósa óhefðbundna stjórnmálaflokka sem ögra því þjóðfélagi sem þeir hafa alist upp í. Óánægja sem þessi er ein orsök þess óróa sem einkennir stjórnmál á Vesturlöndum um þessar mundir, allt frá Brexit til núverandi Bandaríkjaforseta Það er því afar mikilvægt fyrir þjóðfélagið sem heild, lýðræði og frið, að sem fæstir séu skyldir eftir, að sem flestir geti notið lífsgæða og unað sáttir við sitt,“ skrifa hagfræðingarnir.
Hagfræðingarnir gera sex tillögur að úrbótum, til þess að rétta hlut drengja í skólakerfinu. Í fyrsta lagi leggja þeir til að höfða til styrkleika drengja með því að auka samkeppni og áhættutöku í námi til þess að hvetja þá til dáða.
„Breytingar í skólakerfinu síðustu árin hafa dregið úr gildi prófa og einkunna. Í grunnskólum hefur verið komið á flóknu kerfi námsmats, svokölluðu símati, þar sem einstök próf skipta minna máli. Þess í stað er það ástundun yfir allt skólaárið sem skiptir máli. Þessi breyting gæti hafa aukið áhuga stúlkna og bætt frammistöðu þeirra í samanburði við drengi vegna þess að meiri samviskusemi þeirra gefur betri árangur í þessu kerfi á meðan styrkleikar drengja njóta sín ekki,“ segja þeir Gísli og Gylfi um þessa fyrstu tillögu.
Þeir segja einnig að breyta mætti skipulagi náms í grunnskólum til þess að höfða til drengja. Þannig væri unnt að fá karla sem fyrirmyndir, t.d. foreldra, sem gætu lesið með drengjum og myndað tengsl við þá og hvatt til dáða. Vísa þeir í dæmi frá Ástralíu, þar sem slíkt hefur verið reynt.
Þriðja tillagan lýtur að því að auka hlut verklegra greina í grunnskólum. Þeir Gísli og Gylfi segja að sökum þess að grunnskólar bjóði ekki upp á starfsnám taki það oft mörg ár fyrir þá drengi sem ekki hafa áhuga á eða nægilegan undirbúning fyrir bóknám í framhaldsskóla að finna sig.
„Meira verklegt nám í grunnskólum myndi hjálpa að draga úr brottfalli í framhaldsskóla og bæta árangur margra drengja í grunnskóla,“ segja hagfræðingarnir, sem telja mikilvægt að endurskipuleggja skólakerfið „þannig að sem fæst ár tapist og að sem flestir finni sig í því sem þei taka sér fyrir hendur.“
Fjórða úrbótatillagan fjallar um að hvetja fleiri karla til þess að fara í kennaranám. „Þetta væri t.d. hægt að gera með því að breyta fyrirkomulagi námslána þannig að þegar hallar á annað kynið í hinum ýmsu atvinnugreinum þá fáist hagstæðari námlán. Sú þróun að konur séu í meirihluta kennara er alþjóðleg en ekki æskileg fremur en kynjaójafnvægi í öðrum atvinnugreinum,“ segja Gísli og Gylfi.
Í fimmta lagi leggja þeir til að kennararnir verði þjálfaðir til þess að „taka eftir og vera meðvitaðir um hvernig þeir sjálfir mismuna nemendum, umbuna fremur stúlkum en drengjum eða öfugt.“
Sjötta og síðasta tillagan lýtur að lestri. Þeir Gísli og Gylfi leggja til að nemendum verði leyft að lesa það sem þeim finnst áhugavert fremur en að þvinga þá til þess að lesa bókmenntir sem kennurum finnst vera athyglisverðar. „Betra er að drengir lesi það sem þeir hafa áhuga á fremur en að þeir lesi lítið eða ekki neitt,“ segja hagfræðingarnir.