„Börn eru sérfræðingar í eigin lífi og geta haft mikið til málanna að leggja varðandi það hvaða breytinga er þörf. Þó að sumir vilji meina að ég sé barn hef ég áhyggjur af því hvað við teljum fullorðna einstaklinga börn lengi og þótt við höfum einu sinni verið börn erum við ekki sérfræðingar í að vera börn í dag.“
Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í ávarpi sínu á ráðstefnunni Breytingar í þágu barna sem fram fer í Hörpu í dag.
Sagði hún fjölmarga málaflokka innan dómsmálaráðuneytisins þar sem huga þyrfti sérstaklega að málefnum barna, svo sem varðandi barnalög, ættleiðingar, lögræðislög, útlendingamál og persónuvernd, sem og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem hafi markað mikil tímamót fyrir mannréttindi barna.
„Það er einstaklega vel við hæfi að þessi heildarendurskoðun í þágu barna eigi sér stað á þessu ári þar sem hinn 20. nóvember næstkomandi er einmitt 30 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sem er örlitlu eldri en ég.“
Sagðist Áslaug Arna hlakka til að taka þátt í endurskoðun á þjónustu við börn innan síns ráðuneytis og að leggja sitt af mörkum til að tryggja barnvænt og réttindamiðað samfélag.