Starfsmenn embættis forseta Íslands greiddu sjálfir allan kostnað vegna flugs og gistingar vegna náms- og vinnuferðar starfsmanna embættisins sem haldið var í 13.-16. september síðastliðinn.
Þetta segir Örnólfur Thorsson forsetaritari í skriflegu svari við fyrirspurn blaðamanns.
Níu af tíu starfsmönnum embættisins fóru í ferðina en einn þeirra gerðist sekur um kynferðislega áreitni og annað óafsakanlegt háttalag gagnvart tveimur samstarfsmönnum sínum í ferðinni.
Hann fór í leyfi og forsetaritari veitti honum skriflega áminningu. Starfsmanninum hefur nú verið heimilað að snúa aftur til starfa eftir að allir starfsmenn embættisins, þar á meðal konurnar tvær sem kvörtuðu undan manninum, samþykktu það.