„Hann hefur enga heimild til að tengja hjólhýsin við fráveitukerfið,“ segir Haraldur Birgir Haraldsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra.
Haraldur Birgir hefur gert Loo Eng Wah, landeiganda að Leyni 2 og 3 þar sem fyrirhuguð er mikil uppbygging í ferðaþjónustu, að rjúfa tengingar hjólhýsa við rotþróarkerfi á staðnum. Hjólhýsin hafa verið í útleigu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Nú er niðursveifla í ferðaþjónustunni á Íslandi. Ferðamönnum hefur fækkað og við þurfum eitthvað til í það minnsta að gera landið jafn vinsælt og áður, ef ekki vinsælla. Ég held að uppbygging sem þessi hjálpi til,“ segir Loo Eng Wah sem stendur fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu að Leyni 2 og 3 í Landsveit.
Morgunblaðið hefur greint frá umræddri uppbyggingu en íbúar og sumarhúsaeigendur hafa bundist samtökum til að mótmæla þeim. Vilja þeir meina að sveitarfélagið hafi ekki staðið rétt að kynningu á umræddum áformum og að þau séu of stórtæk. Íbúarnir hafa staðhæft að þarna geti risið allt að 500 manna þorp með tilheyrandi raski.
Í bréfi Haraldar Birgis til landeiganda í Landsveit, sem kvartaði undan starfseminni á staðnum, kemur fram að ákvörðun sveitarstjórnar um veitingu stöðuleyfis fyrir hjólhýsin hafi byggst á þeim skilyrðum sem fram komu í umsókn landeigandans þar sem fullyrt var að þau yrðu ekki tengd vatnsveitu- eða fráveitukerfi.
Loo segir í viðtali við Morgunblaðið að því fari fjarri að áform hans séu jafn stórtæk og íbúar hafi haldið fram. Hann vonast til að framkvæmdirnar fari fram í sátt við fólk á svæðinu.