„Það er nær óheyrt að óútkomin bók njóti jafnmikillar athygli og Um tímann og vatnið er að fá núna frá erlendum útgefendum,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.
Mikil eftirvænting er í bókaheiminum vegna nýrrar bókar Andra Snæs Magnasonar sem kemur út í dag. Bókin nefnist Um tímann og vatnið og umfjöllunarefnið er loftslagsmál, að því er fram kemur í umfjöllun um útgáfuna í Morgunblaðinu í dag.
Réttindastofa Forlagsins sendi fyrir skömmu út kynningarefni um bókina, umfjöllunarefni hennar og höfundinn. „Nú þegar hafa farið fram uppboð milli útgefenda í tveimur löndum um það hver hreppir hnossið og bókin hefur samtals verið seld til sjö landa áður en hún kemur út á Íslandi. Þar á meðal til stærstu markaðssvæðanna; Bretlands, Bandaríkjanna og Þýskalands,“ segir útgefandinn, sem vill meina að nýja bókin komi í kjölfar Draumalandsins, bókar Andra Snæs um íslenska náttúru. Sú bók seldist í hátt í 30 þúsund eintökum hér á landi.