„Það er algjörlega svívirðilegt að ríkisstjórn sem kennir sig við velferð hafi ekki sýnt nokkra einustu viðleitni til að hækka örorkulífeyri á meðan allt annað hækkar í samfélaginu,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, sem var endurkjörin formaður Öryrkjabandalags Íslands á aðalfundi fyrr í dag, í samtali við mbl.is.
Þuríður var endurkjörin eftir að hafa sinnt formennsku ÖBÍ síðustu tvö ár og var hún ein í framboði. Hún var kjörin með lófataki viðstaddra og þá var sömuleiðis ný stjórn kjörin. Þuríður veitti mbl.is viðtal eftir fundinn.
„Áherslur næstu tveggja ára og núna næstu mánaða er að reyna hífa upp örorkulífeyrinn vegna þess að í dag er hann orðinn 70 þúsund krónum lægri heldur en lágmarkslaun og verður 100 þúsund krónum lægri á næsta ári ef fram heldur sem horfir,“ segir hún spurð um áherslur Öryrkjabandalagsins.
Hún segir það „algjörlega svívirðilegt“ að ríkisstjórnin hafi ekki tekið tillit til öryrkja á meðan allt annað í samfélaginu hækkar og tekur dæmi um atvinnuleysisbætur sem „voru hækkaðar á einu bretti um 30 þúsund krónur.“
„En öryrkjar og fatlað fólk er skilið eftir. Þetta er smánarlegt svo ekki sé meira sagt,“ segir Þuríður ákveðin og bætir því við að ÖBÍ muni einnig halda áfram að berjast fyrir mannréttindum, betra aðgengi að heilsugæslu, endurhæfingu og tannlæknaþjónustu svo dæmi séu tekin.
„Við vorum skilin eftir í lífskjarasamningunum og skilaboðin til okkar eru eiginlega smánun og lítilsvirðing þar sem við höfum ekki fengið neina hækkun,“ bætir hún við. Hún segir þó að almennt hafi barátta öryrkja gengið vel síðustu tvö ár og hún merki viðhorfsbreytingu meðal almennings og stjórnmálamanna.
„Við erum farin að sjá meira tillit tekið til okkar þegar við komum fram og tölum. Fólk er að gera sér grein fyrir því að það verður enginn öryrki að eigin vali,“ útskýrir hún og bætir við:
„Við erum jafnrétthá öðrum, við höfum kosningarétt og þegar verið er að tala um mál sem varða okkur þá er það skilyrðislaus krafa að við séum með í því samtali. Það er að endurspeglast í því sem sveitarfélögin eru að gera núna með samráði við okkur sem og alþingismenn. Við erum kölluð oftar og meira að borðinu núna en betur má ef duga skal.“
Aðalfundur Öryrkjabandalagsins ályktaði um kjör örorkulífeyrisþega og er sú ályktun svohljóðandi:
„Enn eitt árið eykst gjáin milli örorkulífeyris og lágmarkslauna. Það er ömurlegt að við Íslendingar höfum ákveðið að sumum okkar skuli haldið í sárafátækt lífið á enda. Þó forsætisráðherra vilji ekki biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu, bíður það enn. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þjóðina að beita sér fyrir því að biðinni ljúki nú þegar. Það veit enginn hver þarf næst að reiða sig á smánarlegan örorkulífeyri.“
Í greinargerð með ályktuninni, sem var samþykkt með dynjandi lófaklappi, segir að á árinu 2008 hafi leiðir óskerts örorkulífeyris og lágmarkslauna skilið og að í fjárlagafrumvarpi sem nú liggi fyrir Alþingi sé ekkert sem bendi til þess að breyting verði þar á.
„Í september 2017 sagði núverandi forsætisráðherra að ekki eigi að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Hún sagði ríkisstjórnina gera ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokruðu áfram og byggju við skammarleg kjör. Katrín Jakobsdóttir hefur haft tvö ár til að standa við þessi orð sín. Fólk í fátækt bíður enn,“ segir þar einnig.